Hvað eru konubílar?

Þegar vestrænar konur kaupa sér nýja bíla velja þær þá fyrst og fremst eftir stærð og notagildi. Þannig er Toyota Yaris sá bíll sem flestar norskar konu fá sér og ekki er ólíklegt að svipað gildi einnig hér á landi.

http://www.fib.is/myndir/Kvennabilar.jpg

En eins og gildir um bílakaupendur almennt þá eru bílaþarfir kvenna mismunandi. En skynsemin ræður meiru um bílaval kvenna en karla. Karlar láta meir glepjast af stærð bíla, vélarafli, útliti og hvaða tegund bíllinn er. Körlum er hættara við að kaupa mun stærri bíl en þeir hafa þörf fyrir. Þannig er líklegt að kona sem þarf á fjórhjóladrifnum bíl að halda, velji lítinn eða meðalstóran jeppling sem auðveldur er í umgengni meðan karl með sömu þarfir og svipaðan efnahag velur t.d. Land Cruiser.

Bílatímaritið BilNorge greinir frá þessu eftir að hafa gluggað í tölugögn norsku hagstofunnar frá síðasta ári um nýbílakaup Norðmanna. Vinsælasti bíllinn meðal norskra kvenna er Toyota Yaris en 1227 konur heyptu hann  á sl. ári. Næstir koma VW Golf en hann keyptu 810 konur , VW Tiguan (511 konur), Ford Focus (507 konur), Nissan Qashqai (470 konur), Mitsubishi ASX (450 konur) og Subaru XV med 446 kvenkaupendur.

Tímaritið bar þessar niðurstöður undir talsmenn nokkurra bílaumboða í Noregi. Forstjóri Toyota í Noregi var að vonum ánægður með það álit sem Yarisinn greinilega nýtur hjá norsku konunum og sagði í hálfkæringi að þetta tæki auðvitað af allan vafa um það að konur væru greindari en karlar.