Hvað hafa þessi dekkjaverkstæði að fela?

Eins og fram kom í fréttum fyrr í vikunni þá neitaði um helmingur dekkjaverkstæða verðlagseftirliti ASÍ um upplýsingar í tengslum við verðkönnun á dekkjaskiptum í byrjun apríl.  Á heimasíðu ASÍ segir að vísbendingar séu um að samráð hafi verið að milli aðila um að visa fulltrúum veðlagseftirlitsins frá og neita að upplýsa neytendur um verð á þjónustu sinni.  Fyrir utan það að neita að veita upplýsingar þá voru brögð að því að verðlagseftirlitsfólkinu væri vísað á aðra staði til að fá upplýsingar. 

Það er mat FÍB að þessi sniðganga fjölda dekkjaverkstæða sé óafsakanleg og hafi þann tilgang einan að vinna gegn hagmsunum neytenda.  Í leiðinni eru þessi fyrirtækin að draga úr trúverðuleika sínum og skaða eigin orðspor.  Verðkannanir undanfarinna ára hafa leitt í ljós mikinn verðmun á milli dekkjaverkstæða fyrir þjónustuna og full ástæða fyrir neytendur að bera saman verð.

Í tilkynningu frá ASÍ segir m.a. að það valdi verulegum vonbrigðum að fyrirtæki neiti fulltrúum neytenda að safna og birta upplýsingar um varðlagningu og að það veki eðlilega upp spurningar um hvað slík fyrirtæki hafi að fela. Þá segir einnig að á nokkrum hjólbarðaverkstæðum hafi borið á hreinum og klárum dónaskap í garð verðtökufólks.

Þessi viðbrögð valda því að verðlagseftirlit ASÍ getur ekki birt upplýsingar um verð á umfelgun vorið 2016 eins og það hefur gert mörg undanfarin ár.

Eftirtaldir þjónustuaðilar neituðu fulltrúum verðlagseftirlits ASÍ um aðgang að verði á þjónustu sinni: Betra grip, N1, Dekkjahöllin, Gúmmívinnustofan, Bílkó, Dekkjahúsið, Bifreiðaverkstæði SB, Klettur, Hjólbarðaverkstæði Grafarvogs, Barðinn, Sólning, Nesdekk Grjóthálsi, KvikkFix og Hjólbarðaverkstæði Kaldasels.