Hvað meinar maðurinn eiginlega?

FÍB sér ástæðu til að gera athugasemdir við ýmis ummæli Steingríms J. Sigfússonar um samgöngumál í Kastljósi RÚV í síðustu viku og útúrsnúningum hans um skatta af umferð.

Meðal annars sagði fjármálaráðherra: „Hinir mörkuðu tekjustofnar Vegagerðarinnar duga ekki til að standa undir þeim samgönguframkvæmdum sem hér hafa verið undanfarin ár. Við höfum þurft að millifæra peninga úr almennum skatttekjum ríkisins yfir í samgöngumálin vegna þess að mörkuðu tekjustofnarnir hrökkva ekki til.” Þetta er ekki rétt.

Ríkissjóður mun hafa hátt í 50 milljarða króna í tekjur af sköttum á umferð á þessu ári. Um 16 milljarðar fara til Vegagerðarinnar, þar af um 6 milljarðar til nýframkvæmda. Hitt fer í ríkissjóð. Umferðin stendur semsé ekki aðeins undir öllum rekstri Vegagerðarinnar, heldur meira en þrisvar sinnum þá upphæð. Þegar fjármálaráðherra segist þurfa að millifæra peninga úr “almennum skatttekjum ríkisins” yfir í samgöngumálin, þá eru það útúrsnúningar til að fá fólk til að halda að umferðin borgi ekki eigin kostnað.

Meiri tekjur, ekki minni

Í Kastljósviðtalinu hafði fjármálaráðherra allt á hornum sér um að draga úr álögum ríkisins á eldsneyti.  Hann sagði að ef lækka ætti þessa skatta þyrfti annaðhvort að draga úr vegaframkvæmdum eða auka hallann á ríkissjóði.

http://www.fib.is/myndir/Bens.verdtafla.jpg

Samkvæmt útreikningum FÍB mundi lækkun á eldsneytisgjöldum í raun skila svipuðum eða meiri tekjum í ríkissjóð – ekki minni.

Einfaldur samanburður á tekjum ríkissjóðs af föstum bensínsköttum sýnir að hækkun skilar minni tekjum en áður vegna þess hversu mikið hefur dregið úr umferð (um 9% frá 2009) og þarmeð bensínsölu.

Vissulega hefur hærra innkaupsverð á eldsneyti og virðisaukaskattur einnig áhrif til hækkunar á bensíndropanum. En það hefði munað miklu ef eldsneyti hefði aðeins hækkað sem nemur innkaupsverði. Líklegast er að mjög lítið hefði dregið úr umferð og ríkið því haldið tekjum sínum óbreyttum.

Staðan í dag er þannig að tekjur ríkisins af samgöngum hafa ekkert hækkað þrátt fyrir hækkun skatta, vegna minnkandi umferðar. Minni umferð hefur hins vegar dregið stórlega úr tekjunum sem samgöngur skapa. Þetta á ekki síst við um landsbyggðina og ferðaþjónustuna. Þarmeð fær ríkið ennþá minni tekjur af sköttum á einstaklinga og atvinnulífið. Heildarútkoman er ekki aðeins tap fyrir ríkissjóð, heldur ekki síður fyrir þá sem byggja afkomu sína á umferð fólks.

Lágt verð - miðað við hvað?

Fjármálaráðherra skýrði frá því í Kastljósi RÚV að nefnd á hans vegum hefði komist að því að bensínverð á Íslandi væri með því lægsta sem þekkist í Evrópu.

„Það er mun lægra en á hinum Norðurlöndunum, svona frá 15 og upp í 50-60 krónum á lítrann lægra en í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi og í Noregi kostaði bensínlítrinn um miðjan maí tæpar 300 krónur,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon.

Umsjónarmaður Kastljóssins benti Steingrími á að kaupmáttur væri kannski ekki sá sami hér á landi og annars staðar. En Steingrímur hlustaði ekki á það og virtist býsna ánægður með að bjóða „lægsta“ bensínverðið.

Laun á Íslandi eru að jafnaði um 40% lægri en í Noregi. Til að gæta jafnræðis í kaupmætti Íslendings og Norðmanns, þá þyrfti bensínlítrinn því að kosta 180 kr. hér á landi. En hann kostar í kringum 227 kr. Með öðrum orðum, miðað við kaupmátt er bensínlítrinn 26% dýrari hér á landi en í Noregi. Og ef reiknað er í hina áttina, þá þyrfti bensínlítrinn að kosta 370 kr. í Noregi til að vera jafn dýr og hér á landi miðað við kaupmátt.

Með sömu rökum hefði Steingrímur getað talið landsmönnum trú um að þeir borgi mun lægri skatta en á hinum Norðurlöndunum – vegna þess að laun hér eru miklu lægri en þar. Það þýðir þó auðvitað ekki að skattar séu lágir hér á landi, ekkert frekar en að bensínið sé ódýrt.

Hver talaði um hraðbrautir?

Í Kastljósviðtalinu fór fjármálaráðherra mörgum orðum um loforð stjórnvalda um samgönguframkvæmdir í tengslum við kjarasamninga. Þar lýsti hann úreltum hugmyndum um dýrar hraðbrautir, hugmyndum sem búið er að slá út af borðinu.

Ráðherra sagði m.a.: “Ágreiningurinn snýst um það að menn vilja jú fá þessa vegi, hraðbrautir, dýrar framkvæmdir en menn vilja ekki borga fyrir þær og það er snúið að láta það ganga upp, tala nú ekki um ef menn vilja nú líka lækka álögur á bensín og olíu og ekki sjá neina vegatolla en samt vilja menn auknar vegaframkvæmdir. [R]áðast í flýtingu á gríðarlega stórum og dýrum hraðbrautaframkvæmdum  hér í kringum Reykjavík og austur fyrir fjall, enda myndu menn, þegar þar að kæmi láta þá umferð sem nyti góðs af í einhverjum mæli bera kostnað af því sérstaklega með mjög hóflegu viðbótar veggjaldi, rétt eins og gert er hér í löndunum alls staðar í kringum okkur, í Noregi til dæmis.”

Svo virðist sem fjármálaráðherra hafi ekki frétt af því að innanríkisráðherra er fyrir löngu búinn að slá þessar hraðbrautarhugmyndir út af borðinu? Það gerði hann eftir að hafa hlustað á sjónarmið sveitarstjórnarfólks í nágrenni Reykjavíkur og eftir að hafa tekið við áskorunum 41.500 kosningabærra manna sem FÍB safnaði. Frekar vill fólk bíða með vegaframkvæmdir en samþykkja vegatolla. Það er mergurinn málsins.

Er Steingrími illa við lýðræði?

Í viðtalinu var fjármálaráðherra minntur á viðbrögð innanríkisráðherra vegna andstöðu við hraðbrautaframkvæmdir á forsendum vegatolla.

„Ja, hann hefur náttúrulega verið að reyna að ná fram samstöðu um þetta, rætt við sveitarfélög og sjálfsagt FÍB og fleiri aðila sem hafa verið að skipta sér af þessu,” sagði Steingrímur J. Sigfússon.

”Skipta sér af þessu?” Hvernig ber að túlka þessi orð? Er Steingrími illa við að hagsmunasamtök og fulltrúar sveitarfélaga ”skipti sér af” því sem hann er að sýsla með? Lýsa þessi orð afstöðu hans til lýðræðislegrar umræðu?

Mistúlkar afstöðu FÍB

Í Kastljósviðtalinu beindi fjármálaráðherra orðum sínum sérstaklega að FÍB.

„Og ég verð nú að segja úr því ég nefni hér FÍB á nafn, að ég átta mig ekki alveg á hvernig þeirra hugmyndafræði á að ganga upp. Ef á að lækka markaða tekjustofna til vegamála, það má hvergi leggja á nein veggjöld en það á samt að auka framkvæmdir í samgöngumálum, þá brestur eitthvað í mínum skilningi á því hvernig það á að geta gengið upp við núverandi aðstæður í ríkisfjármálum þar sem við rekum ríkið með dúndrandi halla.”

Hér er ráðherrann kominn út á tún. FÍB hefur aldrei talað um að lækka útgjöld til vegamála, heldur auka þau. FÍB hefur ítrekað bent á að innan við 50% af tekjum ríkisins af samgöngum fer til Vegagerðarinnar. Hið rétta er að þær tekjur draga vagninn þegar kemur að ríkisfjármálum.

Eldsneytisskattar, bifreiðagjöld, innflutningsgjöld af ökutækjum, virðisaukaskattur og alls konar önnur gjöld skila ríkinu 50 milljörðum króna á þessu ári. Af þessari fjárhæð fara aðeins 6 milljarðar í nýframkvæmdir hjá Vegagerðinni. Það er engin ástæða til að skattpína umferðina til viðbótar með vegatollum. Sú hugmynd er svo arfavitlaus að engu tali tekur. Bara kostnaður við innheimtuna mundi duga einn og sér til að ráðast í nauðsynlegustu vegaframkvæmdirnar á næstu árum. Þar að auki er nú þegar til afar einfalt og réttlátt skattkerfi á umferðina, sem er innheimta eldsneytisskatta.

Hvað er þetta með veggjöldin?

Í viðtalinu gældi fjármálaráðherra áfram við veggjöldin. Hann sagði að ef hugmyndir um vegaframkvæmdir yrðu minni í sniðum, þá gætu mun lægri framtíðar veggjöld dugað. ”Þetta yrðu veggjöld sem kæmu inn í algjörlega nýtt fyrirkomulag skattlagningar á umferð,” sagði hann.

Ekki var laust við að hlustendur fengju hroll. Þegar ákafamesti skattheimtumaður þjóðarinnar talar um ” algjörlega nýtt fyrirkomulag skattlagningar á umferð,” þá boðar það ekki gott.

Enn og aftur spyrjum við: hvað er að því að innheimta skatta á eldsneyti?

Látum þá éta kökur

Fjármálaráðherra boðaði enn og aftur þá lausn að ”reyna að stuðla að því að fólk fari í sparneytnari bíla.” Spyrillinn benti honum þá á að fyrir flestallt venjulegt launafólk væri bara ekki í boði að fara að kaupa sér einhverja nýja sparneytna og umhverfisvæna bíla.

Fjármálaráðherra taldi þetta ekki vandamál til lengri tíma litið, því það kæmi að því að fólk þyrfti að endurnýja bíla sína. Með öðrum orðum, fólk sem er að draga stórlega úr akstri vegna þess hvað bensínið er orðið dýrt, á að leysa vandann með því að kaupa sér nýjan bíl fyrir 3-4 milljónir króna.

Óneitanlega rifjast upp endurminningar Rousseau hins franska. Þar tileinkaði hann ónefndri prinsessu (nei, ekki Maríu Antoinette) eftirfarandi viðbrögð þegar hún frétti að bændurnir ættu ekki pening til að kaupa brauð.

„Látum þá éta kökur.”