Hve þungan eftirvagn má bíllinn þinn draga?

The image “http://www.fib.is/myndir/Fendthjolhysi.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Hvað má eftirvagninn – kerran, fellihýsið, hjólhýsið eða tjaldvagninn, -  aftan í bílnum vera þungur? Einfaldasta svarið við spurningunni er að eftirvagninn má vera eins þungur og stendur í skráningarskírteininu og ekki grammi meira. Allir eftirvagnar sem eru meir en 750 kíló að þyngd verða auk þess að vera með hemlum. Ágæt samantekt um þessi mál eftir Geir A. Guðsteinsson blaðamann birtist í bílablaði Morgunblaðsins fyrir viku. Hún var tímabær því að vitneskja um þessi mál virðist gloppótt, allavega má ætla það þegar maður mætir litlum VW Polo með bremsulausa tveggja hesta kerru aftaní sér.
Ekki út í bláinn
Reglur um þyngd eftirvagna eru ekki settar út í bláinn. Hinn ráðandi þáttur í þessu er hversu bíllinn sem dregur eftirvagninn er þungur, hversu öflug er vélin í honum og hemlarnir, hvernig bíllinn og tengibúnaðurinn er byggður? Dráttarbeisli á bíl er sérbúnaður sem þarf að skoða og viðurkenna sérstaklega á skoðunarstöð og skrá í ferilskrá bílsins. Þegar búið er að skoða búnaðinn og ganga úr skugga um að hann sé í lagi er prentað út nýtt skráningarskírteini fyrir bílinn með upplýsingum um leyfilega þyngd eftirvagns.
Í fréttaskýringu bílablaðs Morgunblaðsins segir þetta:
-Eftirvagn má ekki vera þyngri en skráningarskírteini bílsins segir til um, en hætt er við að margur bílstjórinn hafi alls ekki áttað sig á því eða hafi kannað það. Ennfremur eru vagnar skráningarskyldir sem eru yfir 750 kg að leyfðri heildarþyngd og allir tjaldvagnar, fellihýsi og hjólhýsi. Eftirvagnar eða tengitæki sem eru yfir 750 kg þurfa að vera búnir hemlum. Allir eftirvagnar/tengitæki þurfa að vera búnir afturljósum, stefnuljósum og hemlaljósum og þyngd eftirvagnsins má heldur ekki fara yfir þau mörk sem tengibúnaðurinn segir til um.
Níu feta fellihýsi er í drætti um 552 kg og þá miðað við að ekkert sé í því. Á hámarkshraða, 80 km/kst. getur þesskonar eftirvagn ýtt býsna fast og að sama skapi verið þungur ef upp bratta brekku þarf að fara, t.d. upp Kambana eða Holtavörðuheiði. Venjulegt hjólhýsi getur verið frá 800 kg að þyngd og þau stærri allt upp í 1.400 kg.-
Ennfremur segir í grein Geirs að bifreið sem er með 2,0 lítra vél og eigin þyngd 1.413 kg og með skráða burðargetu 522 kg má draga 1.300 kg eftirvagn ef hann er með hemlabúnaði en annars má vagninn aðeins vera 650 kg. Stærri hjólhýsi geta valdið því að ef þeir eru aftan í sjálfskiptum bíl getur sjálfskiptingin hitnað óþægilega mikið. Almennt séð eru sjálfskiptir síður heppilegir heldur en beinskiptir til að draga eftirvagna.
Tryggið útsýnið
-Fyrir akstur þarf að þrífa og stilla spegla vel til að sjónsvið ökumanns sé sem best og varast ber t.d. að skyggja á baksýn með farangri við afturrúðu. Ef dreginn er eftirvagn, tjaldvagn, hjólhýsi eða annað sem hindrar baksýn verður að hafa spegla á framlengdum örmum svo ökumaður sjái aftur með eftirvagninum. Hætt er við að margur ferðalangurinn sem hefur fyllt bílinn af farangri hafi ekki gætt að þessu öryggisatriði.
Á undanförnum árum hefur eftirvögnum af ýmsu tagi fjölgað mjög hér á landi og þess sér heldur betur stað úti á þjóðvegunum. Þannig hefur til dæmis fjöldi fellihýsa fjórfaldast á einum áratug og heilu félögin orðið til í tengslum við þennan ferðamáta. Á sama tíma hefur umferð þungra flutningabíla stóraukist á þjóðvegunum í kjölfar þess að strandsiglingar hafa að mestu lagst af. Þessi aukning hefur talsverð áhrif á eðlilegt flæði umferðar því ökumenn þungra vöru- og flutningabíla og ökumenn með vagna yfir tiltekinni þyngd í eftirdragi þurfa að hlíta sérstökum hraðatakmörkunum.
Hraðatakmarkanir ekki alltaf virtar
Auk viðurkenndra eftirvagna eru enn í umferð nokkrir eldri vagnar sem ekki eru búnir hemlum sem og ýmsar heimasmíðaðar kerrur sem ekki uppfylla öll skilyrði um öryggisbúnað. Séu slík tæki þyngri en 750 kíló að heildarþyngd mega þeir sem þau draga ekki aka hraðar en á 60 kílómetra hraða á klukkustund. Því miður virðast sumir ökumenn ekki gera sér grein fyrir þessum takmörkum og hefur lögregla þurft að hafa afskipti af nokkrum þeirra vegna of hraðs aksturs. Yfirleitt bera menn við þekkingarleysi eða þá að þeir telja sig skapa meiri hættu í umferðinni með því að aka jafn hægt og þeim ber. Það er ljóst að ökumaður sem dregur þungan og hemlalausan eftirvagn hefur minni stjórn á vagninum eftir því sem hraðinn er meiri, sérstaklega ef eitthvað óvænt kemur upp á og hann þarf að nauðhemla.
Búnaður á fólksbifreið og eftirvagn
Í lögum segir að tengihluti tengibúnaðar á fólksbifreið sem er 3.500 kg eða minna að leyfðri heildarþyngd skal vera kúla með 50 mm þvermáli. Þyngd dráttarbeislis á tengibúnað fólksbifreiðar telst innan marka ef ákvæði EBE-tilskipunar eru uppfyllt. Þessar upplýsingar sem og upplýsingar um eftirvagna og tengitæki er að finna í reglugerð um gerð og búnað ökutækja, reglugerð um stærð og þyngd ökutækja og reglugerð um skráningu ökutækja.
Tjaldvagnar og hjólhýsi eru skráningaskyld tengitæki og kerrur eru skráningarskyldar ef heildarþyngd er yfir 750 kg. Skráningarskyldir tengivagnar  skulu hafa viðurkenndan ljósabúnað, s.s. glitaugu, stöðuljós, framvísandi hvít ljós ef breidd vagns er meiri en 160 cm, hemlaljós, stefnuljós og breiddarljósker ef breidd vagns er meiri en 230 cm. Ef eftirvagn er meira en 6 metra langur, t.d. stærstu hjólhýsi, skal hann m.a. vera búinn rauðgulum eða gulum hliðarljósum.
Ökuréttindin
Þess misskilnings hefur nokkuð gætt að þeir sem eru með bráðabirgðaökuskírteini til tveggja ára megi ekki aka bifreið með vagn í eftirdragi. Guðbrandur Bogason, ökukennari, segir að ökunámi sé nemendum bent á að skráningarskírteini bílsins sé að finna upplýsingar um leyfilega þyngd eftirvagns. Þess beri þó að gæta að ef samanlögð leyfð heildarþyngd bíls og eftirvagns sé meiri en 3.500 kg og leyfð heildarþyngd eftirvagns meiri en eiginþyngd bílsins þurfi þurfi bílstjóri ökuskírteini B/E eða eftirvagnaréttindi fyrir fólksbíl, annars venjulegt ökuskírteini B.
B/E réttindin veita þannig rétt til þess að aka bifreið sem væri t.d. 2.700 kg með fólki og varningi og með 1.400 kg eftirvagni ef það samræmist skráningu bifreiðarinnar, eða alls 4.100 kg. I raun reynir ekki á B/E réttindi fyrr en komið er t.d. út í þunga bíla, s.s. jeppa með þunga hestakerru.
Þrýstibremsur vinna með bílnum
Seglagerðin Ægir selur m.a. Palomino fellihýsi. Sigurður Jóelsson verkstæðisformaður segir að fellihýsin séu búin þrýstihemlum en fallið hafi verið frá því að vera með rafmagnsbremur.
„Þrýstibremsur vinna alveg í takti við bílinn. Þegar bíllinn hægir á sér þrýstir vagninn á kúluna á bílnum og þá er hemill í beislinu á vagninum sem þrýstist saman. Hemlunin stjórnast af því að því meira sem bíllinn bremsar því meira bremsar vagninn. Ef bíllinn bremsar gengur öxull inn við þrýstinginn, það togast í tein sem liggur út í hjólin á vagninum. Ef bíll nauðhemlar, nauðhemlar vagninn líka. Við erum fyrstir með þennan útbúnað í fellihýsum. Ég fullyrði að þessi búnaður er mun betri en rafmagnsbremsur, og mun öruggari. Vagn með rafmagnsbremsum þarf að stilla við upphaf ökuferðar og hann bremsar þá alltaf eins, er m.ö.o. ýmist að toga í bílinn eða ýta á hann.
Það hefur verið mikil sala í hjólhýsum í vor og sumar og sú mikla söluaukning hófst í fyrra. Sala í fellihýsum er svipuð. Tjaldvagnarnir eru yfirleitt ekki með þessum hemlabúnaði vegna þess að þeir mega venjulega ekki bera svo mikið,” segir Sigurður Jóelsson verkstæðisformaður.