-Hver er hver og hvað er hvurs?

http://www.fib.is/myndir/Bilafloti.jpg

Áttu þér einhverja uppáhalds bíltegund eins og svo margir? Er þér lítið gefið um einhverja aðra tegund? En veistu nema að það séu tengsl milli uppáhaldstegundarinnar og þeirrar sem þú hefur ekkert álit á?

Undanfarið hafa birst fréttir af bílafyrirtækjum sem er verið að selja, af öðrum sem eru að sameinast eða þá að splundrast. Nú fyrir skömmu var t.d. Ford samsteypan að selja frá sér Jaguar og Land Rover og kaupandinn var hið indverska Tata Motors. Ekki eru heldur margir mánuðir síðan DaimlerChrysler klofnaði þegar Chrysler hlutinn var seldur frá og risafyrirtækið varð að tveimur minni, sem að vísu teljast svo sem ekki smáfyrirtæki.

Auk beinna eignatengsla milli bílaframleiðenda er margskonar önnur samvinna að eiga sér stað, um tækni, rannsóknir og þróun, um það að framleiða einstaka hluti eða að fjöldaframleiða sjálfa bílana. Það er því hreint ekki hægt að fullyrða neitt lengur um að einhver ein bílategund sé algerlega sér á parti og einstök.

Hér er hægt að hlaða niður PDF skjali þar sem skyldleiki og tengsl einstakra bílategunda eru sýnd, einskonar ættartré bílaiðnaðarins í heiminum. Rauðar línur tákna eignatengslin, gular línur sýna samstarfstengsl, bleikar línur tákna tæknilega samvinnu og grænar línur tákna þegar einn framleiðir bíla annars með sérstöku framleiðsluleyfi.

General Motors á flestar fólksbílategundirnar eða fjórtán og  Volkswagen næstflestar eða átta.