Hver er tilgangurinn með svikabrigslum tryggingafélaganna?

Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) eru enn eina ferðina lögð í herferð til að saka stóran hluta þjóðarinnar um tryggingasvik. Þriðja árið í röð var könnun SFF á tryggingasvikum að birtast. Þar kemur fram að 14% aðspurðra „þekkir einhvern” sem hafði fengið tryggingabætur sem hann átti ekki rétt á síðustu 12 mánuðina.

SFF fullyrða jafnframt að miðað við reynslu erlendis séu um 10% greiddra tryggingabóta hér á landi sviknar út, sem geri 3 milljarða króna af þeim 30 sem tryggingafélögin borga í bætur. Með öðrum orðum, af þeim 40-50 þúsund bótakröfum sem fram koma á hverju ári séu kannski 10-20 þúsund upplognar að hluta eða í heild.

Þetta fullyrða samtök fjármálafyrirtækja þrátt fyrir að á ráðstefnu þeirra um tryggingasvik þann 15. september síðastliðinn hafi komið fram að í fyrra hafi aðeins verið ákært hér á landi í fimm tilfellum vegna tryggingasvika.

Jørgen Brodal, yfirsaksóknari efnahags- og umhverfisbrotadeildar lögreglunnar í Osló sagði á ráðstefnu SFF að ef norskar tölur um tryggingasvikamál væru færðar yfir á Ísland, þá hefðu 13 tryggingasvikamál átt að koma til kasta dómstóla hér á landi árið 2010. Þau hefðu hins vegar verið fimm talsins.

Í fréttatilkynningu sinni um viðhorfskönnunina til tryggingasvika segja SFF hins vegar að samtökin „hafi ekki vitneskju um fjölda svika hér á landi.“ Norski saksóknarinn vissi þó betur og geta SFF væntanlega leitað til hans til að fá upplýsingar í framtíðinni.

Systursamtök SFF í Noregi – sem heita Finansæringens Fellesorganisasjon (FNO) – hafa líka aðra sögu að segja um tryggingasvik. Í erindi sérfræðings FNO á ráðstefnu SFF um vátryggingasvik kom fram að af þeim 4.136 milljónum evra sem norsk tryggingafélög borguðu í bætur árið 2010 hafi 14 milljón evra kröfum verið hafnað sem svikatilraunum. Það gerir 0,34% af heildar tjónagreiðslum, sem er þrjátíufalt minna en 10%.

Vafalítið er töluvert um tryggingasvik sem ekki komast upp. En hvað hafa SFF fyrir sér um að 10% af öllum bótakröfum séu tilraun til svika? Eini rökstuðningur þess efnis er að svona sé þetta „erlendis.” Þegar hins vegar erlendu upplýsingarnar á ráðstefnu SFF eru skoðaðar, þá er ekkert sem rökstyður þetta.

Tilgangurinn með svikabrigslunum

Hvers vegna standa SFF í því að troða því inn hjá þjóðinni að 10% af bótakröfum séu ekkert annað en svik?

Svarið við þessu er í raun að finna í viðhorfskönnun SFF. Aftast í henni er spurt hvort fólk hafi tilkynnt tjón til tryggingafyrirtækja síðastliðna 12 mánuði. 24% höfðu tilkynnt tjón, sem gerir um 60 þúsund manns af þeim 250 þúsund sem úrtakið nær til. Þeir sem tilkynntu tjón voru spurðir hvort tryggingafélagið hefði hafnað bótakröfunni í heild eða að hluta. Alls sögðu 22% að bótaskyldu hafi verið hafnað í heild eða að hluta. Þar af var 8% hafnað algjörlega og 14% að hluta.

Hér er skýringin komin. Tryggingafélögin þurfa að hafa eitthvað í höndunum þegar þau neita að viðurkenna bótaskyldu sína og hafna bótakröfum. Það hentar starfsmönnum tjónadeildanna að geta horft ásökunaraugum á fólk og spurt hvort það hafi ekki séð fréttina um að 14% landsmanna þekki til tryggingasvika. Þá er gott að geta vitnað til „erlendra rannsókna“ um að 10% af bótakröfum séu upplognar og það sama gildi fyrir Ísland.

Án efa eru fjölmargar bótakröfur ósannar. Starfsfólk tjónadeilda tryggingafélaganna reynir að sjá við þeim – sem sést best á því að 22% af kröfum er hafnað að hluta eða í heild. En til viðbótar fullyrða tryggingafélögin – í gegnum SFF – að 10% af greiddum bótum séu í raun svikin út. Samanlagt mætti því ætla að einn af hverjum þremur sem tilkynnir tjón reyni að svíkja út bætur eða komist upp með það. Sjaldan hefur ein þjóð verið þjófkennd með jafn afgerandi hætti. Samt kemur fram í viðhorfskönnun SFF að 90% aðspurðra telja vátryggingasvik alvarlegt mál.

Viðhorfskönnun SFF nálgast spurninguna um tryggingasvik með afar undarlegum hætti. Spurt er hvort fólk viti um einhvern sem hefur fengið bætur sem hann átti ekki rétt á. 14% kannast við slíkt á síðustu 12 mánuðum. Hvers vegna var ekki spurt beint hvort viðkomandi hefði sjálfur fengið eitthvað greitt úr tryggingum sem það átti ekki rétt á?

Hvað segir þessi 14% tala? Fram kemur í könnuninni að 25% þeirra sem spurðir voru höfðu tilkynnt tjón til tryggingafélags síðustu 12 mánuði. Fjórtán prósent allra svarenda eru 56% af þeim sem tilkynntu tjón. Einhver skörun á sér auðvitað stað, en samkvæmt þessu mætti ætla að í næstum öðru hverju tjóni hafi fólk verið að fá bætur sem það átti ekki skilið – þ.e. í tugþúsundum tilvika.

Á sama tíma er kært hér á landi vegna 5 tjónasvikamála (samkvæmt norsku lögreglunni).

Það virðist full ástæða til að Fjármálaeftirlitið taki þessi vinnubrögð samtaka fjármálafyrirtækja til athugunar.