Hvernig er vélarolían á þínum bíl?

Þýsk stofnun sem nefnist Gesellschaft für Technische Überwachung (GTÜ) segir að fjórði hver bíll í Þýskalandi sé í umferð með annaðhvort of litla eða of mikla vélarolíu. En verra sé þó að olían er oft orðin svo léleg að stórhætta er á að vélin eyðileggist. Niðurstöðurnar byggjast á því að olíustaða og ástand olíunnar var mælt í 700 bílum sem komu inn á skoðunarstöðvar til árlegrar öryggisskoðunar. Ævar Friðriksson tæknilegur ráðgjafi hjá FÍB segir að ekkert bendi til að ástandið hér á Íslandi sé neitt skárra að því undanteknu að þar sem Þjóðverjar aka yfirleitt hraðar en Íslendingar, þá brenni þýsku bílarnir vafalaust meiri olíu.

Helmingurinn í lagi

Í ljós kom að olíusýnin sem tekin voru reyndust góð úr rúmlega öðrum hverju bíl eða 56,1 prósenti. 38,2 prósent reyndust vera í meðallagi en 5,7 prósent sýnanna reyndust hættulega léleg. Eigendum 22 prósenta af bílunum 700 var bent á að skipta þyrfti um olíu strax.

Það sem mest rýrir smureiginleika olíunnar er sót, vatn sem kemur frá rakamyndun sem síðan blandast olíunni, eldsneyti og glykol (frostlögur), sem líka hefur komist í olíuna. 

Sót í olíunni

Sót úr brunahólfunum berst einkum niður strokkveggina og blandast  saman við olíuna. Það veldur veldur því að vélar slitna hraðar. Í 14,9 prósent bílanna var hlutfall sóts í olíunni það hátt að smureiginleikar olíunnar höfðu rýrnað verulega.  Þegar sóthlutfallið er orðið hærra en góðu hófi gegnir streymir olían mun verr um vélina auk þess sem sótagnir slíta legum og stimpilhringjum hratt. Sótmyndun er mest í bílum sem notaðir eru til stuttra vegalengda og vélarnar ná því sjaldan upp fullum og eðlilegum vinnsluhita. Í þannig notkun þarf einfaldlega að skipta oftar um olíu miðað við ekna kílómetra, heldur en í bílum sem notaðir eru til langkeyrslu

Vatnið þarf að gufa upp 

Í 28,4 prósentum bílanna var vatnsinnihaldið í olíunni svo hátt að hætta var orðin á vélarskemmdum. Vatnið kemur þegar loftraki þéttist inni í vélinni þegar hún kólnar og fellur saman við olíuna. Þegar vatnsinnihaldið er orðið of hátt verður smurgildi olíunnar rýrara, slitfletir vélarinnar slitna hraðar og hætta eykst á ryðmyndun og ryðútfellingum.

Vatnsinnihaldið í olíunni hækkar tiltölulega hratt í bílum sem keyrðir eru á stuttum vegalengdum í einu. Það gerist vegna þess að olían nær aldrei fullum og réttum vinnsluhita. Á lengri vegalengdum þegar olían hefur náð fullum og réttum vinnsluhita, þá gufar vatnið í henni hreinlega upp. Kjarni málsins er því þessi: Þeir sem aka mest stuttar vegalengdir í einu þurfa að skipa oftar um olíu m.v. ekna kílómetra en þeir sem aka á lengri vegalengdum. Þegar skipt er um olíu verður nýja olían að uppfylla þær kröfur og staðla sem framleiðandi bílsins tilgreinir í handbók bílsins. 

Eldsneyti í olíunni

Eldsneyti (bensín eða dísilolía) saman við smurolíuna er sjaldgæfari en sót og vatn, en þó furðu algengt. Þannig reyndust 7,3 prósent af bílunum 700 vera með eldsneyti samanvið olíuna. Eldsneytið rýrir smureiginleika olíunnar og hefur því svipuð óæskileg áhrif og bæði vatnið og sótið.  Eldsneytið sem berst í olíuna gerir það á svipaðan hátt og sótið. Það kemur að stærstum hluta frá brunahólfunum og rennur niður strokkveggina og blandast svo olíunni. Og það er svipað með það og vatn í olíunni, það gufar upp á langkeyrslu.

Grunsamlegt kælivatn

Í 15,9 prósentum bílanna fannst glykol í smurolíunni. Það þýðir að kælivatn hefur komist í olíuna sem aftur þýðir það að heddpakkning er að bila og kælivatnið að finna sér leið inn í smurkerfi vélarinnar. Þetta þýðir einfaldlega það að skipta verður hið bráðasta um heddpakkninguna áður en verra hlýst af.

Það er algert grundvallaratriðið að fylgjast með olíunni á bílnum og kælivatninu eða vökvanum, sem venjulega er helmingablanda vatns og frostlagar. Ef vatnið tekur að lækka án þess að nokkur einasti leki finnist, er það merki um það að heddpakkning sé að gefa sig og kælivatn annaðhvort leki inn í brunahólf og þaðan út í pústkerfið. Ef vatn drýpur úr púströrinu þegar bíllinn er í gangi, eða mikil gufa sést koma úr því þegar bíllinn er í gangi og heitur.

En heddpakning getur líka gefið sig þannig að kælivatnið lekur inná við og beint út í olíuna. Við það getur olíustaðan á olíukvarðanum staðið í stað eða jafnvel hækkað. Oft er hægt að sjá að vatn sé í olíunni ef olían á kvarðanum er gráleit að sjá. Hersu oft athugar þú olíuna á bílnum þínum?