Hvers vegna lækkar bensínið ekki enn meira?

Íslensku olíufélögin fóru af stað í upphafi vikunnar með lækkun á bensíni og dísilolíu eftir gríðarlega lækkun heimsmarkaðsverðs olíu.  Viðbrögðin voru eðlileg en síðan hefur ekkert gerst frekar. 

Íslensku olíufélögin virðast telja það eðlileg viðskipti að hækka álagningu sína á eldsneyti enn frekar í stað þess að skila lækkun heimsmarkaðsverðs á olíu til viðskiptavina sinna.  Svona viðskiptahættir á tímum erfiðleika eru ekki til fyrirmyndar.

Meðal útsöluverð (listaverð) á bensíni í febrúar hjá N1 var ríflega 237 krónur á lítra.  Það sem af er mars er meðalverðið á lítra ríflega 235 krónur.  Þarna munar 2 krónum á lítra.  Í febrúar var meðal heimsmarkaðsverð bensíns á Norður Evrópumarkaði umreiknað á lítra í íslenskum krónum tæplega 57 krónur en það sem af er mars mánuði er meðaltalið tæplega 51 króna á lítra.

Lítraverðið hefur lækkað um 6 krónur sem gerir um 7,40 krónur með virðisaukaskatti.  Ríflega 7 krónur væri eðlilegur  verðmunur á útsöluverði að meðaltali á milli mánaða. Inn í þessum tölum eru allar verðbreytingar reiknaðar á hverjum degi með skráðu gengi íslensku krónunnar gagnvart Bandaríkjadal.

Til samanburðar þá hefur bensín til danskra neytenda lækkað hjá flestum olíufélögum þar í landi um 0,80 danskar krónur í mars sem gerir 15,50 íslenskar krónur.  Hér heima hefur verðið í mars lækkað um 5 krónur.  Hvernig geta íslensku olíufélögin réttlætt þennan verðmun?