Hversu örugg eru hvíldarstæðin?

Um það bil 75 prósent allra vöruflutninga á landi í Evrópu fara fram með vöruflutningabílum. Samkvæmt reglugerðum ber vörubílstjórunum að hvílast eftir tiltekinn aksturstíma og eru hvíldarstæði meðfram hraðbrautum álfunnar þar sem þeir og aðrir vegfarendur geta áð og hvílst. Nú hefur EuroTest stofnunin, sem m.a. hefur gert öryggisúttekt á Hvalfjarðargöngunum við mismikinn fögnuð forráða- og valdsmanna, gert öryggisúttekt á hvíldarstæðum fyrir vöruflutningabíla við evrópskar hraðbrautir og niðurstaðan er sú að öryggi á svæðunum er mjög ábótavant.

Á hverju ári er varningi stolið af vöruflutningabílum í Evrópu og jafnvel heilu bílunum fyrir átta milljarða evra. Lang stærstum hluta þýfisins er stolið þegar bílarnir halda kyrru fyrir á hvíldarstæðunum. Þessi nýja könnun EuroTest leiðir í ljós að öryggi og öryggisgæsla á þessum stöðum er svo léleg að engu tali tekur.

EuroTest könnun þessi var gerð fyrir Evrópusambandið og náði til 50 hvíldarstæða við skilgreinda millilandaflutningavegi. Markmiðið var að ganga úr skugga um hvort og hversu vel hvíldarstæðin uppfylltu kröfur sem gerðar eru til staða af þessu tagi og fyrirhugaða gæðamerkingu þeirra. Alls voru 150 atriði tekin út í skoðuninni og hvert svæði um sig var heimsótt tvisvar sinnum af skoðunarmönnum, einu sinni að degi til og einu sinni að nóttu til. Einungis tvö ef þeim 50 stæðum sem tekin voru út reyndust í góðu lagi. Þau eru Ashford International Truckstop í Bretlandi og Autoparco Brescia Est á N. Ítalíu.

Í yfirgnæfandi meirihluta stæðanna eru það öryggismálin sem eru í ólestri. Þau eru illa afgirt eða þá alls ekki, gæsla við inngang og á svæðinu sjálfu er lítil eða alls engin og viðbragðsáætlanir gagnvart slysum og uppákomum eru í ólestri. Þannig eru það einungis 14 hvíldarstæði af þeim 50 sem skoðuð voru sem uppfylla öryggiskröfur.

Vörubílstjórarnir á hvíldarstæðunum eru oftast einir á ferð og gjarnan útlendingar. Þeir sofa oftast í bílunum sjálfum og bæði þeir og varningurinn, sem oft er mjög verðmætur, eru í óvöktuðum bílunum næturlangt og þannig auðveld fórnarlömb ræningja og þjófa sem enginn hefur gætur á.

Niðurstaða könnunarinnar er í stuttu mnáli sú að sárlega vanti nægjanlega mörg vel vöktuð og örugg hvíldarstæði með alhliða þjónustu fyrir vöruflutningabíla meðfram hraðbrautum Evrópu ef takast á að útrýma þjóðvegaránunum sem nú tröllríða vöruflutningageiranum. Meðan góð og örugg hvíldarstæði eru jafn fá og raun ber vitni, safnist vöruflutningabílarnir gjarnan saman í stórhópum á almennum hvíldarstæðum. Þrengslin þar verði því oft mjög mikil sem skapi bæði hættu og ergelsi.

http://www.fib.is/myndir/Truckstop.jpg