,,Hvetjum alla sem hafa orðið fyrir tjóni að fylla út tjónaskýrslu“

Vegna bikblæðinganna sem eru víða á leiðinni á milli Borgarness og Akureyrar hvetur Vegagerðin almenning til að fresta för um a.m.k. sólarhring er þess er nokkur kostur og fylgjast með framvindunni á morgun og næstu daga. Ef það er ekki mögulegt eru ökumenn hvattir til að aka varlega og eins og alltaf og ætíð eftir aðstæðum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Vegagerðin hefur einnig óskað eftir því við flutningaaðila, þá sem sinna vöruflutningum og annari umferð þungra ökutækja, að þeir geri þrennt. Lækki loftþrýsting til að minnka álag, minnki farm og létti þannig ökutækið og dreifi álaginu á vegakerfið svo sem kostur er með því að flutningur fari ekki allur fram á svipuðum tíma dags. 

Það lítur út fyrir að heldur sé að draga úr bikblæðingunum á þessari leið en áfram er óskað eftir því að vegfarendur fresti för ef kostur er þar sem veðrið vinnur ekki með okkur fyrr en hugsanlega síðdegis á morgun. 

Vegna fjölda fyrirspurna frá félagsmönnum í FÍB sem skrifstofunni hafa borist sendi FÍB fyrirspurn til Vegagerðarinnar og var G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar fyrir svörum.

-       Hver er ábyrgð Vegagerðinnar vegna þess tjóns sem ökumenn hafa orðið fyrir?

,,Við berum klárlega ábyrgð þar til varað hefur verið við ástandinu, en við hvetjum alla sem hafa orðið fyrir tjóni að fylla út tjónaskýrslu á heimasíðunni okkar. Ef einungis er um þrif að ræða þá má fara á næstu þjónustustöð eða hafa samband hingað í miðstöð.“

-       Er verið í raun að grípa til einhverra aðgerða til þess að draga úr þessum blæðingum og eins að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur?

,, Þetta er ekki einfalt mál, en við höfum bent á að við höfum verið að lengja kafla sem er malbikaðir en ekki lagðir með klæðningu. Þær leiðir þar sem þungaumferð er mikil þarf að malbika meira, enda kallar umferðin, magnið og þunginn á það. Klæðningin hefur samt reynst okkur Íslendingum mjög vel og væru malarkaflar þúsundum km lengri ef ekki væri fyrir hana.“

-       Er Vegagerðin með einhverja ábendingu til þeirra sem ætla fara þessa leið á næstunni. Er óhætt að aka þessa leið eða eiga ökumenn að bíða átekta.

,,Aka varlega, aka eftir aðstæðum. Hættan er mest fyrir vöruflutningabíla sem eru fyrst og fremst sem valda þessu. Hættan fyrir venjulegan ökumann er fyrst og fremst vegna biks sem kastast af vörubílunum en við erum að hreinsa það jafn hratt og mögulegt er,“ sagði G. Pétur Matthíasson við fyrirspurnum FÍB.