Hyundai byggir í Tékklandi

http://www.fib.is/myndir/Hyundaikallar.jpg
Stjórnarformaður Hyundai, Chung Mong-koo til vinstri og Jiri Paroubek forsætisráðherra Tékklands handsala hér viljayfirlýsingu um samstarf á fundi sl. haust. Nú eru samningar um stóra Hyundai-bílaverksmiðju frágengnir og framleiðsla hefst 2008.

Hyundai Motors, stærsti bílaframleiðandinn í S. Kóreu stefnir greinilega á mikla landvinninga í Evrópu því að í síðustu viku tilkynntu Kim in-Seo forstjóri Hundai og Pavel Sobisek viðskiptaráðherra Tékklands á blaðamannafund í Prag að reist yrði risaverksmiðja Hyundai í Tékklandi. Verksmiðjan, sem á að verða tilbúin árið 2008 verður í bænum Nosovice. Framleiðslugeta hennar verður 300 þúsund bílar á ári og 600 þúsund gírkassar. Starfsmenn verða um 15 þúsund og fjárfestingin er upp á samtals einn milljarð evra.

Tékkland er orðið meira bílaframleiðsluland en nokkru sinni fyrr. Ekki einungis hefur framleiðsla heimamerkisins Skoda færst gríðarlega í aukana undanfarin ár heldur eru einnig í landinu verksmiðjur Toyota, Fiat og Peugeot. Það er ekki síst vegna hinnar miklu og vaxandi bílaframleiðslu sem hagvöxtur hefur verið ágætur í landinu undanfarin ár, ekki síst það síðastliðna, en þá var hagvöxtur 6%. Talið er að tilkoma Hyundai til landsins muni ein og sér stuðla að 1,3% hagvexti.