Hyundai með áætlun um stórfjölgun rafdrifinna bíla

Samkvæmt áætlunum Hyundai Motor Group vinnur fyrirtækið samkvæmt sérstakri áætlun um stórfjölgun rafdrifinna bíla í framleiðslu fyrirtækisins og verða bílgerðirnar að minnsta kosti 44 innan fárra ára. Fyrirtækið ráðgerir að verja um 50 milljörðum evra á næstu fimm árum í fjárfestingar þannig að 2025 selji fyrirtækið a.m.k. 670 þúsund rafknúna, rafvædda og vetnisknúna rafbíla á ári.

Fyrir árslok er gert ráð fyrir að 75% bílgerða Hyundai Motor Group í Evrópu verði búnar rafmótor og er markmiðið að 2020 verði árleg sala fyrirtækisins á mengunarlausum bílgerðum í Evrópu komin í um 88 þúsund eintök.

Í vikunni tilkynnti Hyundai Motor hugmyndabílinn Prophecy sem þýðir spádómur, en hann sýnir hvernig Hyundai sér fyrir sér að muni einkenna í megindráttum þróun í hönnun næstu kynslóða rafbíla frá fyrirtækinu.

Fyrir utan langan undirvagn og mikið hjólhaf einkenna einkum útlitshönnun Prophecy mjúkar og ávalar línur yfirbyggingarinnar sem gefa fyrirheit um mikið afl og skemmtilega aksturseiginleika. Í farþegarýminu gegnir stýripinninn lykilhlutverki til að skapa hámarksrými fyrir farþega ásamt góðu útsýni sem hönnunin býður upp á. Sætin bjóða í senn upp á afslöppun og afþreyingu en einnig tækifæri til að sinna vinnu sinni á leið sjálfstýrða bílsins til næsta áfangastaðar. Prophecy á að gefa vísbendingu um sýn Hyundai á þróun rafbíla sinna í framtíðinni.