Icelandair farið að sýna heildarverðið á bókunarvefnum

http://www.fib.is/myndir/Icelandair_flugv.jpg http://www.fib.is/myndir/Icelandexpress_flugv.jpg
Birtir verðið                                       Birtir enn hluta verðsins

Ferðalangur sem var að kanna verð á flugfargjöldum frá Íslandi um helgina í tölvunni sinni tók eftir því að Icelandair er hætt að brjóta lög með því að birta aðeins hluta flugsætaverðsins á bókunarvef sínum þar til kemur að því að borga fargjaldið. Um leið og flugsæti er fundið í bókunarvél á heimasíðu Icelandair birtist nú raunverulegt verð flugfarsins eins og lög mæla fyrir um.

Sömu sögu er ekki að segja af Iceland Express. Þar birtist fyrst á bókunarvefnum verð án liðsins „skattar og gjöld“ sem svo bætast við þegar kemur að því að borga fargjaldið. Iceland Express er því enn við sama heygarðshornið sem fyrr og í samtali við Morgunblaðið í dag skýlir framkvæmdastjórinn sér á bak við Talsmann neytenda og Neytendastofu og segir að þessi blekkingaleikur sé í samræmi við tilmæli þeirra. Því verður vart trúað, en sé það rétt skal minnt á að í fimmtu undirgrein þriðju greinar laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum segir þetta:

„Verð er andvirði vöru og þjónustu með virðisaukaskatti og öðrum opinberum gjöldum þar sem við á, þ.e. hvers konar endurgreiðsla án tillits til þess hvort notað er annað heiti, svo sem endurgjald, laun, þóknun, frakt, flutningsgjald, taxti, leiga eða því um líkt.“

Í sjöttu grein grein sömu laga segir svo þetta:

„Óheimilt er að veita rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í auglýsingum eða með öðrum hætti eða beita öðrum slíkum viðskiptaaðferðum sem sama marki eru brenndar, enda séu upplýsingar þessar og viðskiptaaðferðir fallnar til að hafa áhrif á eftirspurn eða framboð vara, fasteigna, þjónustu eða annars þess sem haft er á boðstólum í atvinnustarfsemi sem lög þessi taka til.“