Iðgjaldaokrið á bara eftir að aukast

Íslensku tryggingafélögin hafa löngum okrað á bílatryggingum, sérstaklega ábyrgðartryggingum ökutækja. Samanburðarkönnun FÍB á iðgjöldum bílatrygginga á Norðurlöndunum staðfestir þetta. Íslensku iðgjöldin eru 50-100% hærri en hjá norrænum frændum vorum.

Fátt bendir til að iðgjaldaokrinu muni linna, enda ríkir ekki raunveruleg samkeppni milli tryggingafélaganna. Í Markaði Fréttablaðsins í október síðastliðnum var sagt frá umfjöllun greinarfyrirtækisins Jakobsson Capital um tekjumódel tryggingafélaganna. Sú frásögn er ekki fallin til að auka bjartsýni.

Þar sagði að vegna lækkunar stýrivaxta gætu tryggingafélögin ekki lengur treyst á góðar fjárfestingatekjur líkt og undanfarin ár. Þau þyrftu því að „treysta á tryggingarekstur“ til að halda uppi arðinum. „Tryggingafélög sem hafa ekki arðbæran tryggingarekstur geta lent í vanda,“ sagði Jakobsson Capital. Greiningarfyrirtækið var í raun að segja að tryggingafélögin þyrftu að halda iðgjöldum háum eða hækka þau.

Það er auðvitað galið að rætt sé um að hækka þurfi iðgjöld sem eru þegar hærri en nauðsyn krefur. Ekkert bendir til að tryggingafélögin ætli að fara skynsamlegri leið til að tryggja arðsemi sína, sem er að draga úr sjóðunum sem þau sitja á. Því minna sem þarf að ávaxta, þess minni fjármuni þarf til að skila hlutfallslega góðum arði. Leiðin er að lækka eigin fé og skuldir. Þá þarf ekki að hækka iðgjöld, heldur má þvert á móti lækka þau. Tryggingafélögin þurfa ekki rúmlega tvö hundruð milljarða króna sjóði til að standa undir tjónum. Enda eru stærstu áhætturnar endurtryggðar erlendis.

Vegna þess hvað sjóðir tryggingafélaganna eru miklir um sig þurfa þau miklu fleiri krónur til að arðurinn teljist viðunandi heldur en ef sjóðirnir væru minni. Það kallar bara á að kafa dýpra í vasann hjá viðskiptavinum.