IH bregst við niðurstöðum EuroNCAP

http://www.fib.is/myndir/NissanNavara07.jpg
Nissan Navara.

Í tilefni af niðurstöðu nýjasta árekstrarprófs EuroNCAP á þremur pallbílum sem sagt er frá í fréttinni hér á undan hefur Ingvar Helgason umboðsaðili Nissan á Íslandi brugðist skjótt og vel við, gefið frá sér yfirlýsingu og sent öllum eigendum Nissan Navara ábyrgðarbréf. Í því er eigendunum gerð grein fyrir málinu og boðið að koma með bíla sína til þess að láta breyta hugbúnaði sem stjórnar opnun loftpúða og forstrekkjara fyrir öryggisbeltin. Meginástæða þess hve slælega Nissan Navara kom út úr árekstursprófinu var einmitt sú að loftpúðarnir sprungu of seint út og forstrekkjarar bílbeltanna brugðust sömuleiðis of seint við. Yfirlýsing fyrirtækisins er svohljóðandi:                                                                                                      
            
„Okkur er, eins og gefur að skilja, afar umhugað um niðurstöðurnar sem Nissan Navara pallbíllinn fékk í nýjustu EuroNCAP prófununum og munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að bregðast eins hratt við og frekast er kostur.
 
Eins og kemur fram í niðurstöðum prófananna eru alvarlegustu líkurnar á varanlegum meiðslum beint tengdar seinkun á ræsingu beltastrekkjara og loftpúða við árekstur.
 
Þessi mögulega seinkun er eingöngu bundin við bíla sem eru framleiddir á bilinu maí 2007 til desember 2007.
Þrátt fyrir ofangreint  var hins vegar ákveðið í samráði við Nissan í Evrópu er að innkalla alla bíla af árgerðum 2005, 2006 og 2007 og endurstilla ræsibúnaðinn með endurhönnuðu stýriforriti frá Nissan.  Endurstillingin mun tryggja hraðari ræsingu loftpúðanna.
 
Í síðustu viku sendum við á alla fjölmiðla tilkynningu um innkölluninna og á fimmtudaginn 21. febrúar í síðustu viku auglýstum við innköllunina í dagblöðum. Í gær mánudaginn 25. febrúar fór bréf til allra þeirra 420 Nissan Navara eigenda sem eiga bíla af ofangreindum árgerðum (sjá meðfylgjandi viðhengi).
 
Um næstu helgi verður verkstæðið okkar og verkstæðismóttaka opin bæði laugardag og sunnudag fyrir þá Navara eigendur sem vilja bregðast hratt við og fá ræsibúnaðinn endurstilltan eins fljótt og mögulegt er.
Við höfum beint Navara eigendum í að hringja í þjónustuverið okkar og panta tíma í síma 5258000 eða senda okkur línu með bílnúmeri  og nafni í netfangið ih@ih.is og munum við þá staðfesta tíma með því að svara póstinum um hæl. Við höfum einnig skipulagt heimsóknir til þjónustuumboðsmanna okkar um allt land með eftirfarandi hætti:
 
Stykkishólmi  10. mars

Selfossi  8.-9. mars

Rifi 11. mars                             

Kirkjubæjarklaustri 10. mars

Blönduósi 12. mars

Höfn í Hornafirði 11. mars

Sauðárkróki 13. mars 

Egilsstöðum 12. mars

Húsavík 13. mars                                

Reyðarfirði 12. mars 

Akureyri  13.-15. mars

Vestmannaeyjum 15. mars

Ísafirði 18. Mars
 
Að lokum viljum við ítreka mikilvægi þess að Navara eigendur hafi samband við okkur sem fyrst og komi í kjöfarið með bíla sína í endurstillingu við fyrsta tækifæri.
 
Við viljum einnig benda á að Nissan framleiðandanum er mjög umhugað um öryggi ökumanns og farþega í bílum sínum og vill gera allt sem hægt er til að bregðast hratt við og á ábyrgan hátt. EuroNCAP hefur nú þegar fengið frá þeim Navara pallbíl með uppfærðum ræsibúnaði sem verður prófaður á næstunni og munum við fylgjast vel með þegar þær niðurtöður berast okkur.
 
Við viljum einnig benda á að nýju bílarnir frá Nissan, Nissan X-Trail og Nissan Qashqai hafa nýlega fengið afburða góðar niðurstöður í árekstrarprófunum EuroNCAP og hefur enginn bíll frá upphafi fengið jafn góðar niðurstöður frá því EuroNCAP hóf að framkvæma árekstrarprófanir fyrir 11 árum og Nissan Qashqai eða 36.83 stig af 37 mögulegum.
 
Virðingarfyllst,
Starfsfólk Ingvars Helgasonar.“