Indverskir bílar falla á árekstrarprófi

Hinn nýi Renault Kwid fyrir Indlandsmarkað. Loftpúðar eru aukabúnaður.
Hinn nýi Renault Kwid fyrir Indlandsmarkað. Loftpúðar eru aukabúnaður.

Alþjóðadeild Euro NCAP stofnunarinnar; Global NCAP,.hefur árekstrarprófað nýja bíla sem ætlaðir eru indverskum bílamarkaði. Útkoman er einfaldlega hræðileg. Staðalútgáfur allra nýju bílanna hlutu enga einustu stjörnu.

Bílarnir sem Euro NCAP fékk ADAC í Þýskalandi til að prófa eru Hyundai Eon, Mahindra Scorpio, Suzuki Maruti Eeco, Suzuki Maruti Celerio auk þriggja undirgerða hins nýja Renault Kwid. Enginn bílanna náði einni einustu stjörna fyrir vernd fullorðinna utan eins: Það var sú gerð Renault Kwid sem fáanleg er með loftpúðum fyrir ökumann og farþega en lofpúðarnir eru aukabúnaður sem þarf að sérpanta.  Staðalgerðir þessa nýja bíls og raunar allra hinna eru allar án loftpúða og án búnaðar sem forðar slysum, eins og ESC skrikvarnar. David Ward framkvæmdastjóri Global NCAP segir það einstaklega neyðarlegt fyrir Renault sem um langt skeið hefur lagt sig um að byggja örugga bíla fyrir vestrænan bílamarkað, að kynna hinn nýja Kwid að mestu án allra nauðsynlegasta öryggisbúnaðar handa almenningi í þróunarríkjum.

Það er staðreynd að flestir helstu bílaframleiðendur heimsins gera þá bíla sem ætlaðir eru almenningi í þróunarríkjum mun verr úr garði en þá bíla sem ætlaðir eru fólki í þróuðu ríkjunum. Þetta hefur ítrekað komið í ljós í prófunum á bílum sem ætlaðir eru fólki í S. Ameríku, Afríku o. fl. Í og með er þetta gert til að halda verðinu sem lægstu og þá verður fyrst fyrir að spara í dýrum öryggisbúnaði eins og loftpúðum.

„Global NCAP er þeirrar bjargföstu skoðunar að enginn einasti bílaframleiðandi nokkursstaðar í heiminum ætti að leggja sig niður við það að skila frá sér svona óöruggum og varasömum bílum. Bílaframleiðendum ber að ábyrgjast það að bíla þeirra standist lágmarkskröfur Sameinuðu þjóðanna um árekstursþol og búa alla bíla loftpúðum,“ segir David Ward.