Indverskur rafmagnsbíll til Íslands

http://www.fib.is/myndir/Reva-rafbill-2.jpg
Reva City Car.

Indverskur rafbíll sérstaklega til notkunar í borgum er á leiðinni til Íslands innan skamms. Umboðsaðili bílsins hefur greint FÍB frá þessu og að sögn hans eru tveir bílar þegar seldir

Bíllinn nefnist Reva City Car og er innflutningur þegar hafinn til nágrannalandanna, þeirra á meðal eru Bretland og Noregur. Í Bretlandi hefur bíllinn verið í umferð frá árinu 2003. Þar er hann skráður fyrir þrjá farþega auk ökumanns en fyrir tvo farþega í Noregi. The image “http://www.fib.is/myndir/Reva-rafbill-1.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

Rafbíllinn Reva City Car er byggður til þess að nýtast sem farartæki í borgum. Hann kemst 40 til 80 kílómetra á rafhleðslunni eftir því hvert hitastigið er og hversu mikið af miðstöð og hitunartækjum eru í notkun og hámarkshraði er 75 km / klst. Hann er engu að síður ágætlega viðbragðsfljótur og því ekki til trafala öðrum farartækjum í borgarumferðinni. Þar sem hann nýtir eingöngu innlendan orkugjafa eru opinber gjöld af innflutningi og notkun hans í lágmarki.

Bíllinn hefur verið í breskri og indverskri borgarumferð síðan árið 2003 og í Bretlandi og Noregi er hann skráður sem fjórhjól. Þyngd hans er 670 kíló. Upplýsingar um verð hér á landi liggja ekki fyrir ennþá, en þess má geta að í Noregi er verðið frá 1,2-1,5 milljónir ísl. kr.