Infiniti kynnir nýja bensínvél sem slær dísilvélar út í afli og sparneytni

Hin nýja fjögurra strokka, 2ja l VC-T bensínvél er 27% sparneytnari en 3,5 l V6 vélin sem hún leysir…
Hin nýja fjögurra strokka, 2ja l VC-T bensínvél er 27% sparneytnari en 3,5 l V6 vélin sem hún leysir af hólmi – en hefur sambærilegt afl og tog.

Infiniti; lúxusmerki Nissan, ætlar að kynna nýja bensínvél; VC-T, á bílasýningunni í París í næsta mánuði. Nýja vélin er sögð marka meiriháttar tímamót og vera allt í senn ívið aflmeiri, en mun minni, léttari og sparneytnari en stóra sex strokka vélin sem hún á að leysa af hólmi. Automotive News greinir frá þessu.

Í yfirlýsingu frá Nissan í Japan er vélin sögð verða fyrsta fjöldaframleidda bílvél sögunnar sem er með breytilegu þjöppunarhlutfalli (variable compression ratio). Það þýðir að vélin stillir þjöppunarhlutfallið af eftir ökulagi og álagi hverju sinni sem er að sögn Nissan grundvallarforsenda þess að sem best samræmi náist milli vélarafls og afkasta og hámarks orkunýtingar bensínvéla.

Fyrir tilstilli þessarar tækni fær vélin afl á við ámóta stóra túrbínubensínvél að rúmtaki. En við það bætist að tog eða vinnsla hennar verður miklu meira en þekkst hefur í bensínvélum hingað til, heldur hefur einvörðungu þekkst í dísilvélum nútímans og í tvinnbílum auk þess sem eldsneytiseyðslan verður svipuð og í sambærilegum dísilvélum hvað varðar afl og vinnslu. Þetta hefur hingað til gengið erfiðlega að samræma í bensínvélum.

Hin nýja VC-T vél er með fjögurra strokka, 2,0 l að rúmtaki með túrbínu. Afl hennar og tog er svipað og hjá 3,5 l, V6 strokka bensínvélinni sem hún leysir nú af hólmi en 27% sparneytnari. Einn kostur hennar sem vert er að gefa gaum er sá að hún er verulega ódýrari í framleiðslu en þær túrbínudísilvélar sem eru sambærilegar að afli og eyðslu. Ennfremur gefur hún frá sér miklu minni mengunarefni eins og níturoxíðsambönd og sótagnir en dísilvélarnar. Því þarfnast hún ekki flókins og dýrs mengunarvarnarbúnaðar eins og þær. ,,Dísilvélunum fylgja erfið vandamál en við trúum því að við séum komnir með þá bensínvél í hendurnar sem leyst getur hina flóknu dísilvél nútímans af hólmi,” sagði Kinichi Tanuma þróunarstjóri Infiniti við japanska blaðamenn fyrr í vikunni.