Innheimta umhverfisgjalda yrði íþyngjandi fyrir heimilin í landinu

Þingsályktunartillaga tveggja þingmanna Vinstri grænna um heimild sveitarfélaga til að innheimta umhverfisgjöld yrði íþyngjandi fyrir heimilin, næði hún fram að ganga. Þetta kemur fram í umsögnum Hveragerðisbæjar, Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Félags íslenskra bifreiðaeigenda um tillöguna. Hornafjörður varar við hækkunum á gjöld á einkabíla í sinni umsögn, Vestfjarðarstofa segir að tillagan sé miðuð við höfuðborgarsvæðið en Samband íslenskra sveitarfélaga telur sjálfsagt að þessi möguleiki sé metinn.

Í umfjöllun á RÚV kemur fram að Ólafur Þór Gunnarsson og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmenn VG, lögðu þingsályktunartillöguna fram í október í fyrra og er hún nú til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Í henni segir meðal annars að gjaldtaka sveitarfélaga vegna bílaeignar þekkist varla nema í formi bílastæðagjalda og óbeint í formi gatnagerðargjalda. Sveitarfélögum hafi ekki tekist að stemma stigu við einkabílanotkun og Ísland er meðal þeirra landa þar sem einkabílaeign er hvað mest á hvern íbúa. Almenningssamgöngur hafi að vissu leyti liðið fyrir þessa stefnu, sem og annar umhverfisvænn ferðamáti. 

„Með heimild til álagningar umhverfisgjalda væru möguleikar sveitarfélaga til að bæta umhverfið og styrkja gjaldstofna sína í því skyni auknir. Flutningsmenn þessarar tillögu telja mikilvægt að ráðherra láti kanna möguleika til þessa í núverandi lagaumhverfi og skili Alþingi skýrslu um athugunina á vorþingi,“ segir í tillögunni.

Í umsögn FÍB er varað við því að sveitarfélögin fái vald til þess að skattleggja  bíla í því skyni að draga úr kostnaði við viðhald og hreinsun gatna og vega. Mikill þjóðhagslegur ávinningur sé af almennri bílaeign og -notkun, það auki hreyfanleika fólks og styrki dreifðari byggðir.

Bæjarráð Hveragerðisbæjar tekur í svipaðan streng í umsögn sinni. Þar segir að landfræðilegar staðreyndir séu slíkar hér á landi að erfitt sé fyrir þorra þjóðarinnar að hafna einkabílnum. Ríkisvaldið ætti fremur að efla almenningssamgöngur en leggja álögur á bíleigendur. 

Í umsögn Sveitarfélagsins Skagafjarðar segir að því miður sé það víða svo á landsbyggðinni að fólk hafi ekki val um hvort það notar bíl eður ei og nýtur ekki þeirra valkosta sem höfuðborgarsvæðið hefur með fjölbreyttum samgöngumöguleikum. Sumar fjölskyldur þurfi jafnvel 2 bíla til að geta sinnt vinnu og sótt þjónustu. Skagfirðingar segja að þetta sé tillaga um nýja búsetutengda skatta sem muni leggjast með mestum þunga á landsbyggðina.

 Fram kom í máli Runólfs Ólafssonar, framkvæmdastjóra Félags íslenskra bifreiðaeigenda, á RÚV undir lok síðasta árs, að honum litist illa á hugmyndir tveggja þingmanna Vinstri grænna um að veita sveitarfélögum heimild til að innheimta umhverfisgjöld, meðal annars af mengandi bílum.

„Ég skil alveg hugmyndafræðina og hugsunina á bak við þetta – þetta er reyndar í sjötta sinn sem þau leggja þessa þingsályktunartillögu fram – en enn einn skattstofnin á ökutæki og heimilisbílinn, það er eitthvað sem ég á mjög erfitt með að sjá að geti verið raunhæft,“ sagði Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, í Morgunútvarpi Rásar 2, á sínum tíma.

„Við sjáum það að ríkið er innheimta um 80 milljarða af bílum og umferð á hverju ári. Sveitarfélögin geta alveg ásælst hluta af því til einhverra verkefna, en, eins og ég segi, ég sé ekki að það sé svigrúm, hvað þá í núverandi ástandi, til að bæta enn á fjölskyldurnar í landinu, sagði Runólfur. Sjá nánar viðtalið við Runólf.

Sjá umsagnir hjá umhverfis- og samgöngunefnd: