Innköllun Toyotabíla á Íslandi byrjuð

„Í dag verða póstlögð bréf til eigenda þeirra Toyotabifreiða á Íslandi sem kalla þarf inn til viðgerðar á eldsneytisinngjöf. Um 5.000 bílar verða kallaðir inn hér á landi og eru bréf til allra eigenda þeirra send út á sama tíma og berast þau á næstu dögum.“

Þetta segir í frétt frá Toyota á Íslandi. Ennfremur segir að eftir að bíleigendurnir hafa móttekið bréfið sem sent verður út í dag eigi þeir von á tilkynningu um hvenær og hvar viðgerðin eða endurbótin á að fara fram. Sjálft verkið mun taka 45 – 60 mínútur og verður eiganda bílsins að kostnaðarlausu. Áætlað er að lokið verði að gera við alla þá bíla sem falla undir þessa innköllun hér á landi í lok maí 2010.

Ennfremur segir að Þeir eigendur Toyotabifreiða sem finna fyrir einhverju óvenjulegu í eldsneytisinngjöf bílsins áður en hann verður kallaður inn til viðgerðar séu eindregið hvattir til að hafa samband við næsta viðurkennda þjónustuaðila Toyota strax. Þeim Toyotaeigendum sem telja að bifreið þeirra falli undir innköllunina en fá ekki bréf á næstu dögum er bent á að hafa samband við þjónustuver Toyota í síma 570 5000.

Páll Þorsteinsson upplýsingafulltrúi Toyota á Íslandi sagði í samtali við fréttavef FÍB að allir nauðsynlegir varahlutir til að lagfæra hinn meinta ágalla væru nú komnir til landsins og búið að þjálfa mannskapinn sem framkvæma mun viðgerðina. Mönnnum væri því ekkert að vanbúnaði að hefjast handa.