Innköllunarárið 2014 verður tæpast það stærsta í bílasögunni

Hugsanlegt er að ársins 2014 verði minnst í bílasögunni sem mikils innköllunarárs. Þótt árið sé enn ekki hálfnað, er þegar búið að kalla inn 12 milljón bíla til að lagfæra galla. En þótt 12 milljón bílar sé ekkert smáræði þá virðist á þessari stundu ekki mjög líklegt að árið í ár nái að slá út versta árið í sögu bílaiðnaðarins, sem var árið 2004. Þá voru innkallaðir 30,8 milljón bílar í heiminum. Árið í fyrra var heldur ekkert gott ár að þessu leyti. Þá urðu innkallanirnar samtals 22 milljónir.

Árið í ár byrjaði með því að GM viðurkenndi loksins galla í kveikilásum bíla sem forystumenn GM höfðu vitað af yfir áratug. Kveikilásainnköllunin nær til 2,6 milljón bíla og búist er við að GM eigi eftir að súpa seyðið af þessu kveikilásamáli lengi enn því að dómsmál og miklar sektir vofa yfir. Næst á þessu ári kom svo Toyota og innkallaði 6,4 milljón bíla vegna þrenns konar ágalla sem alla má telja smávægilega. Þá hafa nokkrir aðrir framleiðendur innkallað bíla það sem af er árinu. Meðal þeirra má nefna Mazda (42 þúsund bílar), Chrysler vegna Dodge og Jeep (650 þúsund bílar) og Nissan (ein milljón bíla). Loks er nýjasta innköllunin: Hún er hjá BMW sem líklega kallar inn um 500 þúsund bíla á næstunni vegna vélargalla.

Það verður að segjast að fréttir af innköllunum bíla eru oft mun viðameiri og dramatískari en efni standa til. Oftar en ekki er engin ástæða til æsings. Gallarnir eru stundum svo lítilvægir að varla tekur að minnast á þá, eins og full slappur gormur í framsætissleða eða eitthvað þvíumlíkt. Segja má að fyrrnefndur kveikilásgalli hjá GM sé einna alvarlegastur þeirra ágalla sem innkallað er út af um þessar mundir, því hann felst í því að drepist getur fyrirvaralaust á bílum á fullri ferð á vegum úti. Þegar drepst á bíl, verður stýri hans mjög þungt og hemlavirknin versnar mjög. Við slíkt gæti einhverjum ökumanninum brugðið mjög í brún og gert einhverskonar akstursmistök með alvarlegum afleiðingum.

Í raun er það traustvekjandi að framleiðendur innkalli bíla. Það er staðfesting þess að hjá þeim er vel haldið utan um hverskonar upplýsingar um bílinn og einstaka hluta hans og vilji til þess að veita góða og fyrirbyggjandi þjónustu. Lang flestar innkallanir eru að frumkvæði framleiðenda sjálfra. Mun sjaldgæfara er að yfirvöld þurfi að reka þá til þess.

Af þessum ástæðum er innköllunin hjá GM sérstök. Hjá GM vissu menn nefnilega um gallaða kveikilása strax árið 2001 en þögðu kyrfilega yfir því í rúman áratug. Þetta er ámælisvert, ekki síst vegna þess að bandarísk yfirvöld umferðaröryggismála hafa getað rakið allmörg dauðaslys til þess að það drapst á bílum á fullri ferð og stýrið varð níðþungt, bremsurnar sömuleiðis, loftpúðar urðu óvirkir, sem og samlæsingar, rúðuvindur og margt fleira.

Mary Barra, hinn nýi forstjóri GM hefur tekið þetta vandræðamál í arf og lítið annað gert síðustu vikurnar en að svara fyrir það og verja gerðir fyrirrennara sinna. Hún hefur sent nokkra þeirra verkfræðinga sem mest komu við sögu þessara kveikilása í launað leyfi. En Mary Barra er sjálf verkfræðingur og nú er komið í ljós að hún vissi af kveikilásgallanum löngu áður en GM sendi út með tregðu tilkynningu um gallann í febrúar sl. þannig að hún virðist hafa verið þátttakandi í þöggunartilburðunum. Þá gerir það málið ekki betra fyrir GM að fullur vilji virtist vera hjá fyrirtækinu um tíma að vísa frá sér allri ábyrgð á því á þeirri forsendu að það hafi verið “gamla GM” sem fór á hausinn í verðbréfahruninu 2008 sem bar ábyrgð á því að gölluðu lásarnir voru framleiddir og settir í bílana. Þetta gamla GM sé ekki lengur til og hið nýja GM með sína nýju og hreinu kennitölu geti ekki verið ábyrgt fyrir syndum þess gamla. Þetta þykir almenningi ekki bera vott um góðan skilning á almannatengslum og sýnir hug sinn með því að kaupa færri GM bíla og verð hlutabréfa fellur.

GM á því vart annan kost í stöðunni en að taka á sig kostnaðinn við innköllun bílanna með gallaða kveikilásinn og reiknað er með því að beini kostnaðurinn sé þegar kominn vel yfir einn milljarð dollara. Við hann á svo eftir að bætast álitshnekkir sem endurspeglast í minni sölu, lögfræðikostnaður og líkleg málaferli og sektir.

Margir muna efalaust innkallanirnar miklu hjá Toyota árið 2010 sem kostuðu fyrirtækið fjóra milljarða dollara. Nú hefur komið á daginn að þeir atburðir höfðu sáralítil áhrif á afkomu Toyota þegar til lengri tíma var litið og sömuleiðis varð Toyota fyrir litlum álitshnekki og verðmæti vörumerkisins minnkaði lítið sem ekkert.