Ísland til sölu á eBay?

EbayBreski Netmiðillinn Telegrap greindi frá því þann 10. október að Ísland væri auglýst til sölu á uppboðsvefnum eBay. Uppboðið á Íslandi átti samkvæmt uppboðslýsingunni að standa til 17. október. Þegar Telegraph birti mynd af henni var hæsta boð komið í 10 milljón pund. Auk breska blaðsins greindu netmiðlar margra annarra evrópskra fjölmiðla frá þessu í síðustu viku, þeirra á meðal Berlingske Tidende í Danmörku.

Upphaflegt lágmarksboð í landið var 99 pund og samkvæmt „vörulýsingunni“ var um einstakt land að ræða, með góðum fiskimiðum, blómlegu tónlistarlífi, skemmtilegum þorpum, gjaldþrota bönkum og óttaslegnum íbúum. Ekki voru þó allir íbúarnir hluti þess fylgifjár sem hæstbjóðandi myndi eignast, því tekið var sérstaklega fram að tónlistarkonan Björk fylgdi ekki með í kaupunum.

Hæstbjóðandi gat ekki vænst þess að fá landið heimsent, heldur hefði sá þurft að nýta sér eign sína þar sem hún er niðurkomin norður í Ballarhafi. En hann átti að fá staðfestingu þess að hann væri eigandi landsins í formi límmiða sem á stæði - Iceland is mine. Ekki átti hann heldur að geta greitt kaupverðið með greiðslukorti enda væri allt slíkt í lamasessi í landinu. Þess í stað skyldi hann greiða verðið annaðhvort í gulli eða í gegn um PayPal greiðslukerfið á Internetinu.

Væntanlegum kaupanda var einnig ráðlagt að þegar hann væri orðinn eigandi landsins skyldi hann hafa vakandi auga með ýmsum þjóðum og sérstaklega þó með Bretum og Bandaríkjamönnum.