Íslandi hótað málaferlum

Þann 13. júlí sl. sendi ESA (EFTA Surveillance Authority) íslenskum og norskum stjórnvöldum  rökstutt álit sitt á þeim trassaskap ríkjanna að láta hjá líða að innleiða tilskipun um umferðaröryggi á vegum (Road Infrastructure Safety Management Directive). Ísland og Noregur hefðu að öllu eðlilegu átt að vera byrjuð að taka til hendinni í síðasta lagi 19. desember 2010. Formleg áminning um að lokafrestur væri að nálgast var send út 13. apríl 2010.

Í tilskipuninni um öryggisáætlun felst m.a. hvernig eigi að hanna og leggja mikilvægustu vegi þjóðvegakerfisins, skoða þá út frá forsendum eins og slysahættu og slysalíkum og færa ágalla til betri vegar í samræmi við evrópskar öryggiskröfur. Megintilgangurinn með þessu er sá að auka og tryggja sem best öryggi notenda veganna.

Jafnframt því að vera rökstutt álit ESA er tilkynningin til íslenskra og norskra stjórnvalda jafnframt lokaviðvörun. Bregðist ríkin ekki við innan tveggja mánuða frá dagsetningu bréfsins og svari því hvernig þau hyggist framfylgja tilskipuninni verður málinu áfrýjað til EFTA dómstólsins.

Í raun snúast þessar ákúrur ESA um að það hefur verið undir hælinn lagt hvort Ísland fari eftir evrópskum stöðlum um vegagerð og gerð og búnað vega, sem við þó erum skuldbundin til að gera. Ólafur Kr. Guðmundsson, varaformaður FÍB og tæknistjóri EuroRAP á Íslandi, segir í samtali við Fréttablaðið í dag að íslenskar sérlausnir í vegagerð sem ekki samrýmast Evrópustöðlum sé m.a. að finna á vegaöxlum og -köntum, ljósa- og skiltastaurum í vegaköntum, t.d. á nýju Reykjanesbrautinni. Þá sé opna geilin milli veghlutanna á Reykjanesbrautinni ekki í samræmi við staðla. Þar ættu að vera vegrið til að varna útafakstri ofan í hana og inn í umferðina á móti. „Það er hættulegt að fara ekki eftir þessum stöðlum. Þetta er háalvarlegt mál sem snýst um umferðaröryggi," segir Ólafur við Fréttablaðið í dag.