Íslendingar vilja vera umhverfisvænni í samgöngum

Í umfangsmikilli könnun um rafbíla, sem gerð var meðal almennings á Norðurlöndum í upphafi þessa árs, leiddi í ljós að Íslendingar eru einna viljugastir til að skipta yfir í rafbíl. Helsta hindrunin sem fólk sér er drægi bílanna. Hlöður ON eru til þess fallnar að draga úr ótta við ónógt drægi og þá eru ýmsir bílaframleiðendur sem óðast að setja á markað sífellt langdrægari rafbíla.

Niðurstöður í umhverfiskönnun Gallup, sem kynntar voru í janúar, leiða svo ótvírætt í ljós að Íslendingar vilja vera umhverfisvænni í samgöngum. Til marks um það eru svör við tveimur spurningum, sem lagðar voru fyrir í könnunni.

Fyrir helgina tók ON í notkun hlöðu með hraðhleðslu fyrir rafbíla í Nesjum við Hornafjörð. Með þessu er enn eitt skrefið stigið til að opna hringveginn rafbílaeigendum. Það markmið mun nást fyrir páska og er Reykjahlíð við Mývatn næst á dagskrá. Hlaðan í Hornafirði er við Hótel Jökul í þéttbýliskjarnanum í Nesjum, sem stendur við hringveginn.

ON hefur einsett sér að opna allan hringveginn fyrir rafbílaeigendum með því að varða hann hlöðum. Framkvæmdir við hlöðu með hraðhleðslu í Reykjahlíð við Mývatn eru langt komnar. Hún verður tekin í notkun fyrir páska og þar með brúast síðasta bilið við hringveginn. Á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal er ON búin að setja upp hlöðu með hefðbundinni (AC) hleðslu. Þar verður sett upp hleðsla með hærri spennu í vor eða snemmsumars.