Íslenska lögreglan pantar fleiri Volvo V90 Cross Country lögreglubíla

Volvo V90 CC lögreglubíll
Volvo V90 CC lögreglubíll

Sumarið 2017 voru fyrstu Volvo V90 Cross Country lögreglubílarnir teknir í notkun. Þessi útgáfa af bílnum er þróuð af Volvo Special Vehicles and Accessories, SV&A (sérstök ökutæki og fylgihlutir).  Sænska lögreglan er stór viðskiptavinur en einnig lögreglulið víða í heiminum.

Sænska útgáfan af Auto motor & sport (Mestmotor.se) birti í morgun frétt um kaup íslensku lögreglunnar á þessum vel útbúnu lögreglubílum.  Í fréttinni segir að íslenska lögreglan sé þegar búin að taka við fyrstu átta Volvo V90 CC lögreglubílunum og að ellefu bílar til viðbótar hafi verið pantaðir með afhendingu fram á árið 2019.

Sænska blaðið fjallar sérstaklega um aðstæður á Íslandi þar sem flestir búi á Höfuðborgarsvæðinu en síðan sé byggðin dreifð og akstursvegalengdir langar á milli staða.  Fjallað er um það að þjónustusvæði íslensku lögreglunnar séu víðfem í dreifbýlasta landi Evrópu.  Við þessar aðstæður sé Volvo V90 CC sérlega góður kostur.

Volvo V90 CC lögreglubíllinn er mikið breyttur.  Undirvagninn og fjöðrunin er sérstyrkt til að takast á við aukna þyngd (2,6 tonn) og álag við sérhæfða notkun. Bremsurnar koma úr T8 tvinnbílunum en þær eru sérstyrktar og þær öflugustu sem passa í 18 tommu felgur bílsins sem eru þær sömu og í XC60 bílnum.

Lögrelgubílarnir eru byggðir sérstaklega hjá Volvo Specialvagnar sem er við hliðina á stóru Torslanda bílaverksmiðjunni í Gautaborg. Sérhver lögreglubíll er settur saman af sérhæfðum starfsmönnum og tekur verkið um viku.  Í hverri viku eru settir saman tólf lögreglubílar þannig að íslenska lögreglan er búin að kaupa og panta í kringum 4% af ársframleiðslu Volvo á sérhæfðum lögreglu V90 CC bílum.