Jafnræði og samkeppni skal gætt

FÍB, Félag íslenskra bifreiðaeigenda, hvetur fjármálaráðherra til að beita sér fyrir lagfæringu á reglugerð um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna til að tryggja jafnræðis- og samkeppnissjónarmið. Meðal aðgerða stjórnvalda til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveirunnar er endurgreiðsla á virðisaukaskatti af vinnu við bílaviðgerðir.

 Margir hafa nýtt sér þetta ákvæði í tengslum við viðhald ökutækja sinna. Aðgerðin er vinnuhvetjandi og eflir verkefnastöðu fagaðila í bifreiðaviðgerðum. Í lögum um breytingu á virðisaukaskatti, nr. 50/1988 er heimilt að endurgreiða einstaklingum utan rekstrar 100% virðisaukaskatts af vinnulið vegna bílaviðgerðar, - málningar eða -réttingar fólksbifreiða á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2021.

Skilyrt er að umsækjandi sé skráður eigandi ökutækisins og að lágmarks fjárhæð vinnuliðar sé 25.000 krónur án VSK. Endurgreiðslan byggir á framlögðum sölureikningi frá viðurkenndum aðila á virðisaukaskattsskrá. Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd þessa ákvæðis. Í reglugerð um framkvæmdina frá 3. júlí 2020 er endurgreiðsluákvæðið skilgreint nánar.

Veitt er heimild til endurgreiðslu VSK af vinnu við bifreið sem aðallega eru ætluð til fólksflutninga og gerð fyrir 8 farþega eða færri og flokkuð sem fólksbifreið (M1) í ökutækjaskrá. Ákvæðið á einnig við um fólksbifreið sem sérútbúin er fyrir hreyfihamlaða og húsbifreið.

FÍB hefur fengið nokkrar fyrirspurnir og kvartanir vegna þess að ,,Allir vinna” endurgreiðslan nær ekki yfir heimilisbíla sem falla undir flokk N1. Eðlilegra væri að miða endurgreiðsluna við fjölskyldu- og heimilisbíla en ekki hvort bíll falli undir M1 eða N1 flokk reglugerðar nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja.

Löggjafinn setti sér líklega ekki það markmið að útiloka endurgreiðslu á VSK af vinnu við heimilisbíla almennra neytenda sem eiga og nota t.d. Toyota Hilux frekar en Land Cruiser sem fjölskyldubíl. FÍB hefur einnig fengið athugasemdir frá neytendum vegna þess að vinnuliður reiknings þarf að fara yfir 25.000 krónur án VSK. Stundum þarf að kaupa þjónustu af fleiri en einum lögaðila vegna sama verks eða viðgerðar.

FÍB telur eðlilegt að sama endurgreiðslufyrirkomulag gildi um viðgerð á bíl sem tveir eða fleiri vinna við og viðgerð sem einn lögaðili framkvæmir. Minni fyrirtæki og sérhæfð fyrirtæki í bílaviðgerðum hafa einnig kvartað yfir þessum lágmarks fjárhæðum. Þessir þjónustuaðilar í bílgreininni eiga erfiðara með að standast samkeppni um viðskipti við stór alhliða verkstæði.

Þessir annmarkar á framkvæmdinni, sem hægt væri að lagfæra með reglugerðarbreytingu, raska jafnræði á milli neytenda eftir flokkum sambærilegra ökutækja og jafnræði í samkeppni á milli atvinnufyrirtækja í bílgreininni.