Jaguar I-Pace bíll ársins 2019 í Evrópu

Rafknúni sportjeppinn Jaguar I-Pace hefur verið kjörinn „Bíll ársins í Evrópu 2019“. Tilkynnt var um niðurstöðu 60 manna dómnefndar evrópskra blaðamanna frá 23 löndum við upphaf bílasýningarinnar í Genf sem nú stendur yfir. Alls hefur I-Pace unnið 55 alþjóðaverðlaun frá því að Jaguar kynnti bílinn fyrir aðeins einu ári síðan.

I-Pace hefur verið tekið með kostum og kynjum í Evrópu enda seljast 75% framleiðslunnar í álfunni þar sem ökumenn haga greiðan aðgang að 85 þúsund hleðslustöðum víðs vegar um álfuna.

Ralph Speth, framkvæmdastjóri hjá Jaguar segir fyrirtækið afar stolt af þessum verðlaunum sem séu þau fyrstu sem Jaguar er kjörinn bíll ársins í Evrópu. „Jaguar I-Pacer var hannaður og þróaður í Bretlandi, allt frá skissu á blaði til fullskapaðrar söluvöru. I-Pace er einn tæknilega fullkomnasti bíllinn á markaðnum sem sett hefur alveg nýjan staðal í bílgreininni,“ sagði Speth þegar úrslitin voru kynnt.

I-Pace er framleiddur í Bretlandi og hefur selst í rúmum átta þúsund eintökum á því eina ári sem hann hefur verið á markaði.

 

Kynningarakstur Jaguar I-Pace

Hér að neðan má lesa um I-Pace kynningarakstur sem birtist í 3. tbl. FÍB 2018 sem unninn var af Róberti Má Runólfssyni.

 

Í lok septembermánaðar bauð Jaguar – Land Rover á Íslandi blaðamönnum í nokkuð sérstaka kynningu. Tilefnið var stuttur reynsluakstur á Jaguar I-Pace, rafdrifnum lúxusjeppling sem beðið hefur verið með talsverðri eftirvæntingu og þegar verið hlaðinn lofi erlendra bílablaðamanna. Bíllinn, sem einkum er att kappi við Tesla Model X, er frumraun Jaguar í rafbílaöldunni og, ef marka má sögusagnir síðustu missera, gæti framleiðandinn alfarið breytt sér í rafbílaframleiðanda á næstu árum og hætt þannig framleiðslu brunahreyfilsbíla. Fjórar prótótýpur á lokastigi voru fengnar sérstaklega til landsins fyrir þessa kynningu en eiginleg forkynning fyrir almenning fer fram í byrjun nóvember.

 Jaguar I-Pace

Fyrstu bílarnir verða þó ekki fáanlegir hér á landi fyrr en í lok febrúar á næsta ári en slík er eftirvæntingin að nú þegar eru nokkur eintök seld. Verð hafa ekki enn verið kunngerð en búast má að þeir kosti frá um 9.000.000 kr. til um 12.000.000 kr.

Með bílunum í för var Reynald Roger, titlaður „General Manager – Electric Vehicles – Europe“, sem fræddi mannskapinn um eiginleika og getu bílsins. Rafkisinn umræddi kemur útbúinn 90 kílóvattstunda rafhlöðu sem samanstendur af 432 pokasellum (e. Pouch cells) sem liggja í gólfi bílsins. Áætlað drægi er um 470 km skv. hinum nýja WLTP (e. Worldwide harmonized Light vehicles Test Procedure) auk þess má ná 80% hleðslu  á einungis 40 mínútum í hraðhleðslu. 200 hestafla rafmótor er að finna á hvorum öxli og skila þeir samanlagt 400 hestöflum og 696 Nm af togi. Þar sem þeir eru rafmótorar skila þeir að sjálfsögðu öllu togi samstundis frá 0 snúningum. Samkvæmt Reynald vegur hvor mótor með stökum gír alls 78 kg. Með hagkvæmri og snjallri hönnun og framúrskarandi efnivið skilar kerfið (mótorar með rafhlöðum) fáheyrðri 95% aflnýtni. Til samanburðar er nýtni dísilvéla ekki nema í kringum 45% og bensínvéla aðeins um 30%.

Jaguar I-Pace

Með allt að því hlægilega 14 mm í veghæð og „Kammbakslögun“ (e. Kammback, Kamm tail) er erfitt að kalla I-Pace jeppa í landi þar sem Land Cruiser er fasti og öllum mönnum kunnugur. Í raun það eina sem mætti tengja I-Pace við alvöru jeppa er 2.133 kg eiginþyngd. Hins vegar má hækka loftpúðafjöðrunina um allt að 50 mm til að komast leiða sinna þegar vegirnir fara versnandi eða þegar þarf að vaða. Vegna snjallrar pökkunar á rafhlöðum og mótorum og skorts á loftinntökum sem annars gætu leitt vatn inn í brunahólf er hámarks vaðdýpi afar virðulegir 500 mm.

Í akstri fóru hlutirnir allir að smella saman, enda er upptakið gríðarlegt og akstureiginleikar líflegir. Lágur þyngdarpunktur, (vegna rafhlaðna í gólfi fyrst og fremst) og (næstum) 50:50 þyngdardreifing í samvinnu við tvöfaldar klofspyrnur úr F-Type sportbílnum að framanverðu og fjölarmafjöðrun úr F-Pace sportjeppanum að aftanverðu, skilar sér í hærri veltimiðju og veltistífni að aftan sem dregur þannig úr undirstýringu og eykur stýrisnæmni. Til að einfalda málin: Jaguar I-Pace er fantaskemmtilegur akstursbíll. Aksturinn var hljóðlátur, þökk sé drifrásinni og ekki síst lágum dragstuðli upp á 0,2. Loftpúðafjöðrunin og há eiginþyngd straujuðu loks ójöfnur vegarins af kostgæfni og voru þægindin vel viðunandi.

Jaguar I-Pace

Jaguar I-Pace er spennandi viðbót í rafbílaflóruna og drífur áfram mikilvæga framþróun iðnaðarins.

Róbert Már Runólfsson