Jaguar I-Pace bestur í flokki miðlungsstórra sportjeppa í Þýskalandi

Rafknúni sportjeppinn Jaguar I-Pace hefur verið kjörinn sá besti í flokki miðlungsstórra sportjeppa í Þýskalandi og hampar hann nú „Gullna stýrinu“ í sínum flokki þar í landi þar sem verðlaunin eru ein þau eftirsóttustu í bílgreininni.

Eins og kunngert hefur verið var Jaguar I-Pace valinn bíll ársins á Íslandi 2020 en það var Bandalag íslenskra bílablaðamanna sem stóð að því kjöri.

Verðlaunin koma í kjölfar lokaprófana fulltrúa dómnefndar á þeim bílum sem komu til greina í úrslitunum þar sem Audi Q3 og Seat Tarraco voru teknir til kostanna auk I-Pace á Lausitzring akstursbrautinni. Meðal dómnefndarmanna voru ökuþórarnir Hans-Joachim Stuck og Mattias Ekström. Þetta er þriðja „Gullna stýrið“ sem Jaguar hlotnast fyrir bíla sína í Þýskalandi, en 2013 féll það í skaut F-Type og 2016 fékk XF verðlaunin.