Jaguar í rafmagnið

Jaguar er nú að bætast í hóp þeirra bílaframleiðenda sem veðja á rafmagnið sem orkugjafa framtíðarbílanna. Jaguar sýnir nú í Los Angeles frumgerð nýs rafbíls – jepplings eða SUV (þótt hann líkist flestum öðrum slíkum lítið). Bíllinn kallast I-Pace og er væntanlegur á markað eftir um eitt og hálft ár.

Gagnstætt því sem flestir bílaframleiðendur gera um þessar mundir er I-Pace hreinn rafbíll. Í honum er engin bensínrafstöð né brunahreyfill sem knýr hjólin ásamt rafmótor eins og algengast er, heldur bara stór rafgeymasamstæða sem felld er í gólf bílsins og svo tveir rafmótorar sem knýja annarsvegar framhjólin og hins vegar afturhjólin.

Bæði rafmótorarnir, rafhlöðurnar og straumstýrikerfið er allt eigin hönnun Jaguar og sú frumgerð sem nú er til sýnis í Los Angeles er nokkurnveginn sá bíll í bæði tæknilegu og útlitslegu tilliti sem kemur á markað 2018. Samanlagt afl afmótoranna tveggja er 400 hö og togið er 700 Newtonmetrar. Það þýðir m.a. að viðbragð bílsins 0-100 km/klst er rétt rúmar fjórar sekúndur. Það staðfesta prófanir á nokkrum frumgerðum I-Pace sem nú fara fram, m.a. í Bandaríkjunum. Þær staðfesta einnig að meðaldrægi bílsins er rúmlega 500 kílómetrar og í hörðum álagsakstri reyndist drægið vera 355 km. Hleðslutími tómra rafhlaða úr 50 kW jafnstraumstengli er einungis tvær klst.

Heildarlengd bílsins er 4,68 m og lengd milli hjólása er 2,98 m. Farangursrýmið er rúmlega 500 lítrar og það sem sérstaklega réttlætir nafngiftina jepplingur eða jafnvel jeppi er að skögun yfirbyggingar framyfir aftur- og framhjól er mjög stutt. Útlitið skýrist svo að nokkru af því hve loftmótstaða bílsins er lítil, ekki hvað síst þegar miðað er við jeppa og jepplinga. Loftmótstöðugildið (Cw) er tæplega 0,30.