Jaguar minnkar vélarnar

Smækkun er ofarlega á baugi í bílaiðnaðinum þessa mánuðina. Vélarnar í smá- og millistærðarbílum hafa farið minnkandi með því markmiði að ná fram minni eyðslu og minni útblæstri. Í smábílunum eru þriggja og jafnvel tveggja strokka vélar orðnar talsvert algengar og nú er röðin loks komin að dýru bílunum og sportbílunum. Jaguar vinnur nú að þróun þriggja nýrra véla sem allar eru minni en löngum áður í einstökum gerðum þessa virðulega breska lúxusmerkis. Sportbíllinn F-Type fær nýja V6 vél með forþjöppu og lúxusbilarnir XF og XJ fá fjögurra strokka vélina, sem þegar er komin fram í Range Rover Evoque auk þess sem nýja V6 vélin er sterkari valkosturinn.

Þessar nýju vélar eru báðar til sýnis á bílasýningunni í Bejing sem nú stendur yfir. Þar er líka sýnd rándýr ofurlúxusútgáfa af XJ sem nefnist Ultimate sem einmitt er með V6 vélina undir húddinu, en af þessum bíl er myndin.

V6 vélin nýja er úr áli. Hún er þrir lítrar að rúmtaki með forþjöppu, breytilegum opnunartíma ventla og beinni strokkinnsprautun eldsneytis en það kerfi kallast SGDI hjá Jaguar. Þessi vél kemur í stað núverandi V8 vél sem er frá þeim tíma þegar Ford átti Jaguar.  V6 vélin er 380 hestafla og tog hennar er mest 460 Nm við 1800-4000 snúninga á mínútu í F-sportbílnum. Í XJ og XF bílunum er hún stemmd þannig af að hestöflun eru 340 og togið 450 Nm.

Fjögurra strokka vélin sem fyrr hefur verið nefnd er með afgasforþjöppu eða túrbínu. Hún er tveir lítrar að rúmtaki og hestöflin eru 240 og togið er 340 Nm. Þetta er sama vél og er í hinum nýja Range Rover Evoque og nokkrum gerðum Volvo bíla. Í Jaguar kemur hún í stað núverandi sex strokka vélar sem eins og gamla V8 vélin er án forþjöppunar.

Við báðar þessar nýju vélar hjá Jaguar verður 8 hraða sjálfskipting frá ZF staðalbúnaður. Skiptingin er með sjálfvirkum start-stopp búnaði. Ekkert hefur enn verið gefið upp hvenær nýju vélarnarverða allsráðandi í nýjum Jagúarbílum, né heldur hvort verð þeirra breytist á einhvern hátt við umskiptin. Bílablaðamenn geta sér þess til að umskiptin muni eiga sér stað í haust í kring um árgerðaskiptin þegar árgerð 2013 kemur á markað og bílasýningin í París opnar dyr sínar (í september nk.).