Japanski jarðskjálftinn hægir bílaiðnaðinum

Jarðskjálftarnir í Japan hafa haft slæm áhrif á japanskan iðnað og nú er þeirra einnig farið að gæta í Evrópu. Opel neyðist til að stöðva framleiðslu sína á Opel Corsa og Meriva og minnkandi framboð á nýjum bílum mun líklega hafa verðhækkanir í för með sér.

Opel tilkynnti á föstudag að verksmiðjan í Zaragoza á Norð-austur Spáni yrði stöðvuð í dag og á morgun yrði verksmiðjan í Eisenach stöðvuð. Ástæðan er sú að tölvubúnaður sem framleiddur er í Japan er uppurinn og framleiðslan í verksmiðjunni í Japan liggur niðri vegna skemmda sem jarðskjálftarnir hafa valdið á verksmiðjunni.

Ástandið eftir jarðskjálftana og náttúruhamfarirnar er mjög slæmt og sem dæmi má nefna að fjórðungur þeirrar orku sem til staðar var fyrir hamfarirnar er ekki lengur til staðar. Fjöldi verksmiðja í Japan framleiða íhluti í evrópska bíla í stórum stíl. Framleiðslustöðvun þar þýðir því að leita verður annarra leiða í snarhasti. Þeir íhlutir sem Japanir framleiða í Evrópska bíla eru einkum tölvuhlutir, rafbúnaður, hálfleiðarar og örgjörvar og þegar þessa hluti vantar, stöðvast framleiðslan einfaldlega.

Svipaða sögur er að segja úr bandaríska bílaiðnaðinum. Þar er nú framleiðsla um það bil að stöðvast í nokkrum verksmiðja GM vegna skorts á japönskum íhlutum. Þá er farið að gæta skorts á heilu bílunum eins og t.d. Toyota Prius en Prius er einvörðungu framleiddur í Japan.