Jólagjöf til vegfarenda

Hún er bæði góð og þakkarverð jólagjöfin til vegfarenda um að aðskilja sómasamlega aksturssefnur á Reykjanesbrautinni milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur. Frá þessari fyrirætlan var greint nýlega en margir, þeirra á meðal FÍB og nú síðast  lögregluyfirvöld á Suðurnesjum hafa lengi kallað sterklega eftir þessum lífsnauðsynlegu úrbótum.

Að ganga frá tvöfalda veginum eins og gert var áður en hann var opnaður fyrir umferð hefur æ síðan vakið furðu margra sem láta sig umferðaröryggi einhverju varða. Frágangurinn var þannig að milli nýja vegarins sem lagður var samsíða þeim gamla, var breið geil. Ekki var sett vegrið til að varna því að bílar gætu runnið útaf veginum og yfir geilina og inn í umferð til gagnstæðrar áttar. Sem betur fer hafa enn ekki orðið stórslys vegna slíks. En engu að síður hefur það gerst einum átta sinnum sl. þrjú ár, að bílar hafa orðið stjórnlausir af einhverjum ástæðum (gjarnan í hálku og krapa) og farið út af akbrautinni, yfir geilina og upp á akreinarnar til gagnstæðrar áttar. Tilviljun og mildin ein hefur ráðið því að ekki hefur orðið stórslys, svipað því sem varð við mjög líkar aðstæður við Arnarneshæð fyrir fáum árum.

Reykjanesbrautin til Keflavíkur er afar fjölfarin enda fer um hana nánast öll umferð í tengslum við alþjóðaflugvöllinn á Miðnesheiði og hefur gert allt frá því að farþegaflug milli Íslands og annarra landa lagðist af frá Reykjavíkurflugvelli. Með auknum flugsamgöngum og stórfjölgun fólks sem um Keflavíkurflugvöll fer, hefur umferð um Reykjanesbrautina vaxið að sama skapi.

Þegar slysatíðni Reykjanesbrautar var orðin óviðunandi og dauðaslys og mjög alvarleg umferðarslys orðin nánast árviss, tók framsýnt fólk á Suðurnesjum sig til og krafðist úrbóta. Stofnuð voru m.a. samtökin Samstaða undir forystu Steinþórs Jónssonar formanns FÍB. Öll þessi „grasrótarhreyfing“ náði þeim árangri að tvöföldun brautarinnar hófst og nú vantar einungis herslumuninn að ljúka verkinu. Eftir er að tvöfalda spottann frá Hafnarfirði og suður fyrir Straum. En það er óhætt að segja að tvöföldunin, svo langt sem hún enn nær, hafi borgað sig margfaldlega því að banaslys hafa eftir því sem við vitum, ekki orðið þau ár sem liðin eru síðan og mjög alvarleg slys vart heldur.

Euro RAP vegrýnin sem FÍB hefur staðið fyrir undanfarin ár snýst um það að skilgreina og skrá áhættuþætti vega og þeirra nánasta umhverfis. Að mati Euro Rap/FÍB hefur ýmis frágangur á sjálfum veginum og næsta nágrennis hans eftir tvöföldunina ekki verið sem skyldi. Eitt þeirra atriða sem FÍB hefur gagnrýnt var einmitt það sem nú stendur til að færa í lag. Euro RAP/FÍB hefur gagnrýnt það harðlega að skilja þessa geil milli akstursstefna óvarða. Hún var eins og tifandi tímasprengja sem yrði að aftengja.

Nú verður það loks gert. Það er sannarlega gott merki þess að hugarfarsbreyting í þessum málum hefur átt sér stað hjá almenningi og yfirvöldum.  Og það er sannarlega þakkarvert.