Jón Trausti endurkjörinn formaður BGS

Á aðalfundi Bílagreinasambandsins sem haldinn var sl. fimmtudag var sérstaklega fjallað um stöðu menntamála í iðngreinum og um bíla- og bílaleigumarkaðinn, auk þess sem Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka hélt gestaerindi um stöðu efnahagsmála. Góð mæting var á fundinn og sköpuðust líflegar umræður meðal félagsmanna sem voru ánægðir með fundinn.

Jón Trausti Ólafsson var einróma kosinn til áframhaldandi setu sem formaður stjórnar sambandsins. Þá var ný stjórn kosin á fundinum, og niðurstaðan sú að hún helst að mestu óbreytt frá síðustu stjórn fyrir utan það að Egill Jóhannsson kemur nýr inn fyrir hönd Brimborgar. Stjórnina skipa eftirfarandi aðilar:

  • Jón Trausti Ólafsson (formaður), Bílaumboðið Askja
  • Einar Sigurðsson, Bifreiðaverkstæði Reykjavíkur
  • Baldur Davíðsson, Armur
  • Áskell Þ. Gíslason, Höldur
  • Skúli Skúlason, BL
  • Bjarni Benediktsson, Víkurvagnar
  • Egill Jóhannsson, Brimborg
  • Benedikt Eyjólfsson (varamaður), Bílabúð Benna
  • Guðmundur Ingi Skúlason (varamaður), Vélaverkstæðið Kistufell

Ályktun aðalfundar

Aðalfundur Bílgreinasambandsins lýsir yfir ánægju með þann mikla og glæsilega árangur sem hefur náðst á undanförnum misserum í umfjöllun og kynningu á iðngreinum í skólum landsins, sem hefur haft jákvæð áhrif á viðhorf almennings til greinanna og á nýskráningar nemenda. Menntamálaráðherra og menntamálaráðuneytið hafa meðal annars sýnt málefninu mikinn áhuga og lagt sín lóð á vogarskálarnar, og er það vel. Þá hafa skólarnir sjálfir og Iðan fræðslusetur, líkt og Bílgreinasambandið, unnið ötullega að kynningu námsbrauta fyrir ungu fólki og er árangurinn af því óumdeilanlegur.

Sé horft sérstaklega til námsbrauta tengt bílgreininni þá hafa nýskráningar nemenda aukist verulega, og raunar ekki verið meiri um nokkra tíð. Samhliða því er sérstaklega ánægjulegt að á ákveðnum brautum innan bílgreinarinnar eru umsóknir kvenna nú orðnar fleiri en karla og fagnar Bílgreinasambandið því mjög.

En betur má ef duga skal, og því hvetur Bílgreinasambandið stjórnvöld og aðra hagsmunaaðila til að hlúa áfram sérstaklega vel að menntamálum í iðngreinum á komandi árum, hvort sem er við skóla og nám á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni. Framþróun og tæknibreytingar eru örar og því er góð menntun og endurnýjun í iðngreinum okkur sem samfélagi nauðsynlegt til að takast á við það sem framtíðin ber í skauti sér. Gildir það jafnt um bílgreinina sem og aðrar iðngreinar.

Auk þess er meiri og betri menntun vís til þess að samtímis stuðla að auknum gæðum og fagmennsku innan greinanna, sem  hlýtur ávallt að vera markmið allra hagsmunaaðila. Mun Bílgreinasambandið áfram vinna að þróun og betrumbótum innan bílgreinarinnar með þeim hætti sem þarf, nú sem hingað til.