Jú ráðherra!

Í viðtali við Morgunblaðið í gær, 26. apríl gerir Steingrímur J. Sigfússon minna úr skattheimtu ríkisins á eldsneyti en efni standa til og segir að þótt ríkið lækkaði sínar álögur, þá myndi það vega svo lítið. FÍB vill svara þessari fullyrðingu ráðherrans með þeim orðum sem í fyrirsögnum þessarar fréttar standa.

Eldsneytisverð er orðið mjög íþyngjandi og það myndi muna um hverja lækkunarkrónuna. 

http://www.fib.is/myndir/Breytir-litlu.jpg

Þann 28. febrúar sl. skoraði FÍB á ráðherrann og ríkisstjórnina að lækka álögur hins opinbera á bifreiðaeldsneyti. Félagið hefur ítrekað áskorunina nokkrum sinnum og ítrekar hana nú enn einu sinni - að stjórnvöld lækki skatta sína á eldsneyti um 20 kr. lítrann

Umferðin í mars dróst saman um 15,5% samanborið við mars í fyrra. Vegagerðin spáir verulegum samdrætti út árið ef þessi þróun heldur áfram. Samdrátturinn er mestur á landsbyggðinni, sem hefur afar neikvæð áhrif á verslun og þjónustu, ekki síst ferðaþjónustuna. Samdráttarins sáust glögg merki um nýliðna páska.

Það geta seint talist brýnir hagsmunir ríkissjóðs að lama atvinnulíf á landsbyggðinni með óbreyttri skattlagningu. FÍB bendir á að ríkissjóður tekur til sín um 115 kr. af hverjum bensínlítra og seldum lítrum fer ört fækkandi.

Allt mælir með lækkun eldsneytisskatta. Hátt eldsneytisverð eykur rekstrarkostnað fyrirtækja, sem hækkar flutningskostnað, sem hækkar vöruverð, sem hækkar verðbólgu, sem hækkar skuldir heimilanna – og minnkar ráðstöfunartekjur. Auk FÍB hafa sveitarfélög, samtök launþega og atvinnurekenda skorað á ráðherra að lækka álögurnar. Ráðherra aðhefst ekkert en segist vilja bíða í viku til 10 daga eftir niðurstöðu frá önnum köfnum starfshópi sem rýnt hefur í málið í mánuð þegar.

Nú síðast hafa Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra sent frá sér eftirfarandi ályktun: „Stjórn SSNV mótmælir harðlega stefnu stjórnvalda í skattlagningu á eldsneyti. Íþyngjandi áhrif á atvinnustarfsemi og lífskjör íbúa á landsbyggðinni eru orðin með öllu óþolandi. Stjórnin telur aðgerða þörf strax.“