Karlrembuviðhorf Fiat-forstjórans

Margir sem lagt hafa leið sína á stóru evrópsku bílasýningarnar hafa efalaust tekið eftir því hversu ungu konurnar sem vinna á sýningarsvæðum bílaframleiðendanna, ekki síst Fiat, eru mikið augnayndi og hversu létt klæddar þær eru. Sýningarsvæði Fiat samsteypunnar á Genfarsýningunni sem nú stendur yfir, er engin undantekning að þessu leyti.

Stúlkurnar sem sýna Fiatbílana eru allar klæddar í fatnað sem engu leyna um fagran líkamsvöxt, buxur eða pils eru ofurstutt og blússur, jakkar og kjólar, allt mjög aðskorið og eins efnislítið sem verða má. Blaðamaður frá Svenska Dagbladet í Svíþjóð spurði Fiatforstjórann Sergio Marchionne um tilganginn með þessu og hvernig það tengdist bílunum. Forstjórinn brást fremur illa við spurningunni, glotti og sagði við blaðamanninn. –Þú hlýtur að búa í landi þar sem konur ganga í síðbuxum og mussum og eru brjóstalausar. Ég vorkenni þér.

Blaðamaðurinn spurði hvort þessar sýningar á létt klæddum stúlkum væru hluti af einhverjum nútíma markaðsfræðum. Marchionne svaraði því til að síðast þegar hann sá stúlkurnar hefðu þær verið full klæddar svo hann hefði ekkert að skammast sín fyrir. Blaðamaðurinn spurði þá forstjórann hvort hann óttaðist ekki að konur, sem líka eru bílakaupendur, túlkuðu þessar kvennasýningar þannig að Fiatsamsteypan vildi fyrst og fremst höfða til karlmanna. –Alls ekki, svaraði Sergio Marchionne.