Kaup á notuðum bíl

Eitt algengasta erindi þeirra fjöldamörgu sem daglega hringja til FÍB og biðja um ráð, snýst um bílakaup. Keyptur var notaður bíll sem svo bilaði fljótlega eftir kaup og hár viðgerðakostnaður er fyrirsjáanlegur. –Hver er réttur minn? spyr kaupandinn. Er ekki ábyrgð á bílnum og á seljandinn ekki þar með að greiða fyrir viðgerðina? Er þetta ekki leyndur galli?

Þegar svo þjónustufulltrúar FÍB spyrja nánar út í málavexti kemur oftast í ljós að bíllinn er gamall og slitinn og bilunin sem upp kom kannski eitt af því sem búast mátti við  af þeim sökum. Og þegar bíleigandinn hefur svarað því hvenær hann keypti bíllinn, hvað hann er gamall og mikið ekinn þá liggur beint við að spyrja: -skoðaðirðu bílinn áður en þú keyptir? Fékkstu einhvern sem þekkir vel til bíla með þér til að skoða hann, eða fórstu með hann í ástandsskoðun? Við þessum spurningum er svarið oftast nei.

Þegar komið er í ljós að kaupandi sinnti lítt eða ekkert þeirri skyldu sinni að skoða bílinn vel eða fá hann skoðaðan, þá er fátt til bjargar. Það er nefnilega svo að þegar allar verksmiðjuábyrgðir eru úr gildi fallnar er enginn sem ábyrgð ber í svona málum nema að kaupanda takist að sanna að seljandi hafi vísvitandi leynt því einhverjum ágöllum við bílinn eða hreinlega logið til um ástand hans. En við rækilega skoðun á bílnum kemur venjulega fljótt í ljós hvort það sem seljandi eða bílasali segir um hann sé sannleikanum samkvæmt eða ekki. Loks skal á það minnt að það myndast engin ábyrgð á gömlum bíl við það eitt að hann skipti um eiganda. Því skal á það minnt enn og aftur að þegar keyptur er gamall bíll er bráðnauðsynlegt að væntanlegur kaupandi skoði bílinn vel og vandlega, eða fái það gert, áður en hann undirritar nokkurn skapaðan hlut. 

En loks þá er það nú einu sinni þannig að bílar eru mis sterkir og góðir að upplagi og endast mis vel. Þetta vita margir og sú vitneskja endurspeglast oftast í endursöluverði notaðra bíla. Tegundir og gerðir sem þekktar eru að traustleika og góðri endingu halda verðgildi sínu betur og lengur en bílar sem þekktir eru fyrir að vera bilanagjarnir, ryðsæknir o.s.frv.

FDM, systurfélag FÍB í Danmörku hefur rýnt í tölur um ástand bíla sem koma í ástandsskoðun í skoðunarstöðvar. Í ljós kemur að sumar tegundir fá á sig færri athugasemdir en aðrar. Það er staðfesting á því að vissara er að hugsa sig vel um áður en fest eru kaup á notuðum bílum. Tölugögnin sem skoðuð voru eru frá tímabilinu 2002-2011 og samkvæmt þeim er Skoda sú tegund sem fæsta ágalla hefur eða 4,7 á bíl. Flestir ágallarnir eru á hinum ítalska Alfa Romeo 156 með 8,3 ágalla á bíl.

Sá sem næstur Skodanum kemur er Suzuki með 4,8 ágalla og þá Toyota með 4,9. Athyglisvert er að sáralítið samhengi er milli nývirðis bílanna og ágallanna. Þannig kemur Mercedes Benz afleitlega út og er næst versta bílmerkið í þessum samanburði með 7,5 ágalla á bíl.

Fimm verstu bílarnir á þessum lista eru þessir:

- Alfa Romeo 8,3 ágallar pr. bil

- Mercedes-Benz 7,5 ágallar pr. bil

- Fiat 7,2 ágallar pr. bil

- Renault 6,4 ágallar pr. bil

- Mitsubishi 6,4 ágallar pr. bil