Kerkorian losar sig við GM-hlutabréfin

The image “http://www.fib.is/myndir/Kerkorian.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

Milljarðamæringurinn Kirk Kerkorian lætur nú General Motors finna til tevatnsins fyrir að hafa gengið gegn vilja sínum og hafnað samvinnu/sameiningu við Renault og Nissan fyrr í haust.  Eftir að stjórn GM hafnaði sameiningartillögunni dró Kerkorian fulltrúa sinn úr stjórninni og seldi þá strax hluta hlutabréfaeignar sinnar í GM.

Wall Street Journal segir frá því um helgina að nú hafi Kerkorian selt hvern einasta af þeim 28 milljónum hluta sem hann átti í GM fyrir um 800 milljónir dollara. Hlutur Kerkorians nam þegar hann var mestur 9,9 prósentum í fyrirtækinu.

Salan á hlut Kerkorians olli því að verð á hlutum í GM hefur lækkað, sem gerir GM erfiðara fyrir að framfylgja láns- og lausafjáráætlun sinni sem sagt hefur verið frá áður hér á fréttavef FÍB. Fréttaskýrendur geta sér þess til að Kerkorian gamli sé í hefndarhug gagnvart GM  og hafi selt þennan stóra hlut sinn einmitt með það í huga að gera fyrirtækinu erfitt fyrir.

Stjórn GM og Rick Wagoner forstjóri telja sig geta ráðið fram úr erfiðleikum fyrirtækisins án utanaðkomandi aðstoðar eða sameiningar við aðra, heldur einungis með niðurskurði og sölu eigna. En það verður ekki auðvelt verkefni því að GM situr uppi með gríðarlegar lífeyrisskuldbindingar langt fram í tímann til viðbótar við mikla sölutregðu og rekstrartap undangengin fimm ár.

En Kerkorian gamli er óútreiknanlegt ólíkindatól og hver veit nema að hann hafi ekki barasta selt alla hluti sína í GM á einu bretti til þess að verðfall yrði á hlutum í GM, til þess að geta svo aftur keypt þá á lægra verði og þannig jafnvel náð undirtökunum í félaginu. Hver veit?