Kia boðar lúxusbíl

Nú styttist í opnun bílasýningarinnar í Frankfurt og stöðugt berast fregnir af nýjungum sem bílaframleiðendur ætla að viðra þar. Ein þessara nýjunga er frá Kia sem hyggst sýna frumgerð af stórum viðhafnarbíl, sem enn er á hugmyndarstigi.

Þetta er stór, aflmikill og hraðskreiður amk. fimm metra langur lúxusbíll með V8 bensínvél og afturhjóladrif, svipaður og lúxusbílarnir frá Benz, BMW o.fl. Tilgangurinn er vitanlega sá að mæla móttökur og viðbrögð sýningargesta og blaðamanna áður en endanlega verður ákveðið hvort  ökutækið fari í fjöldaframleiðslu og sölu og þá hvar.

Reyndar eru upplýsingar frá Kia um þennan bíl harla litlar og ekkert er sagt um hversu langur, hár, breiður og þungur hann verði. Þá hefur hann ekki heldur fengið neitt gerðarheiti. En fram kemur að framleiðsla geti hafist og jafnvel hefjist í verksmiðjum Kia í S. Kóreu í maí 2012 og bíllinn þannig geti komið á markað í Evrópu með haustinu  það sama ár, ef ákveðið verður á annað borð að bjóða upp á hann í Evrópu.

En þessi nýi lúxusvagn er óneitanlega nokkuð sérstæður í útliti, sérstaklega ef miðað við aðra lúxusbíla frá t.d. BMW, Benz og Lexus. Menn telja sig sjá í útlínum bílsins handbragð aðal hönnuðar Kia, þjóðverjans Peter Schreyer sem áður var aðalhönnuður Audi.