Kia Naimo rafbíll

 

http://www.fib.is/myndir/Kia-Naimo-Concept-2.jpg
http://www.fib.is/myndir/Kia_Naimo_3.jpg
http://www.fib.is/myndir/Kia-Naimo-4.jpg
Kia Naimo á bílasýningunni í
Seoul

Seoul bílasýningin verður opnuð almenningi í fyrramálið. Þar sýnir kóreski bílaiðnaðurinn sínar bestu hliðar og nýjar hugmyndir eru í öndvegi. Þeirra á meðal er nýr rafknúinn hugmyndabíll frá Kia sem nefnist Naimo Electric Car. Rafmótorinn í honum er 109 hö og hámarkshraðinn er sagður 150 km/klst. Engar rúðuþurrkur eru á bílnum heldur kemur „þotuhreyfill“ í þeirra stað sem blæs heitu lofti á framrúðuna. 

 Ekki verður annað sagt en hugmyndaauðgin fái að blómstra hjá Kia, sem hefur verið að endurnýja framleiðslubílaflota sinn rækilega undanfarið og auk þess sýnt á sýningum fjölmarga frumlega hugmyndabíla. Tekið er fram að Naimo Electric Car sé ekkert aprílgabb heldur vísi bíllinn til ekki svo fjarlægrar framtíðar. Bíllinn er einungis 3,9 m langur og eru hjólin fjögur staðsett sem næst hverju horni bílsins til að þau taki sem allra minnst frá innanrýminu. Lengd milli hjólamiðja er 2,65 m, breiddin er 1,84 og hæðin er 1,59 m. Geymarnir eru af líþíum-gerð, rýmd þeirra er 27 kílóWattstundir og drægið er allt að 200 km á hleðslunni. Með því að tengja bílinn við hraðhleðslutengil tekur 25 mínútur að hlaða tóma geyma upp um 80%.

 Naimo er þriðji rafmagns-hugmyndabíllinn sem Kia hefur komið fram með undanfarna 12 mánuði eða svo. Sá síðasti var Kia KV7 Concept, sem reyndar er að sumu leyti líkur Kia Naimo. Þar áður birtist svo Kia Pop og loks fyrir um ári síðan sýndi Kia tvinnbílinn Kia Ray sem orkutæknilega var talsvert athyglisverður.