KIA og Ameríkubílum fjölgar í Evrópu

Fyrstu tvo mánuði ársins seldust 1.050.725 fólksbílar í Evrópu. Það er 4,1% færri bílar miðað við sama tímabil í fyrra. Talsverð hreyfing varð milli einstakra tegunda. Þannig seldust 10% færri Mercedes bílar nú en í fyrra meðan KIA bætti sig verulega og sömuleiðis jókst mjög innflutningur á bandarískum bílum. Þá jókst sömuleiðis sala á Smart bílum.
Langmesta aukningin varð á Íslandi í sölu nýrra bíla. Hér seldust 63% fleiri bílar í janúar og febrúar en á sama tíma í fyrra. Næstmesta aukningin varð í Lettlandi með 34%  aukningu. Í þriðja sæti er svo Danmörk með 26%. Bílasala jókst sömuleiðis í Írlandi, Luxembourg og Portúgal.
Það bílmerki sem mest bætir sig í álfunni er KIA en 63% fleiri KIA bílar seldust en á sama tíma í fyrra. Sala á bandarískum GM bílum (Cadillac, Chevrolet, Buick o.fl) varð 68% meiri en í fyrra. Þá bætti Smart sig um 34%, BMW um 12% og Volvo um 6%. Hins vegar dróst sala á Saab saman um 4%, Benz um 10% sem fyrr segir, og á Chrysler um 12%.
Öll önnur evrópsk bílmerki seldust verr nú í árn en á sama tíma í fyrra. Verst gekk hjá Jaguar sem skrapp saman í sölu um 24%, Fiat um 20%, MG-Rover um 20%, Alfa Romeo um 19% og Nissan um 17%. Samdráttur hjá Mazda varð 8,9%, hjá Toyota-Lexus 4,8% og PSA (Peugeot/Citroen) 2,6%.
Bílasala á tímabilinu jókst í 13 Evrópulöndum en dróst saman í 23 á fyrstu tveimur mánuðum ársins miðað við sama tíma á síðasta ári. Verst gekk í Póllandi þar sem samdrátturinn varð 29% og í Sviss og Bretlandi þar sem samdrátturinn varð 10%. Þetta kemur fra´í tölum frá ACEA sem er bílgreinasamband Evrópu.