Kia Pop á næstu Parísar-bílasýningu

Kia bílaframleiðandinn í Kóreu hefur mikla trú á rafmagninu sem orkugjafa fyrir bíla framtíðar. Því til staðfestingar sýnir Kia í fyrsta sinn rafbílinn Pop á bílasýningunni í París sem opnuð verður undir lok næsta mánaðar.

Pop rafbíllinn er ennþá á vinnslustigi og afar frumlegur í útliti, en sjálfsagt á það eftir að breytast eitthvað þegar bíllinn fer í fjöldaframleiðslu.

Pop er borgarbíll, einungis þriggja metra langur eins og Toyota IQ og Smart Fortwo og er sagður rúma þrjá fullorðna eins og Toyotan áðurnefnda. Í útliti svipar Pop lítilsháttar til hugmyndabílsins og tengiltvinnbílsins Ray sem sýndur var í Genf sl. vor enda eru báðir þessir  nýju hugmyndabílar Kia (sennilegast) hannaðir á sama stað – í hönnunarmiðstöð Kia í Kaliforníu.

Um það hverskonar aflbúnaður verður í bílnum er ekkert sagt en á Genfarsýningunni í vor sýndi Kia líka Kia Venga í rafmagnsútfærslu. Mótorinn í þeim bíl var 80 kW, drægið var 180 kílómetrar og rafhlöðustæðan rúmaði 24 kW-stundir og stysti hleðslutími í hraðhleðslu var sagður vera 20 mínútur en úr venjulegri rafmagnsinnstungu 8 klst.   

Kia Motors Corporation var stofnað árið 1944 og er elsti bílaframleiðandi í Kóreu. Fyrirtækið er hluti af Hyundai-Kia samsteypunni og stefnir að því að verða á meðal stærstu bílaframleiðenda heims. Fyrirtækið framleiðir ríflega 1.5 milljónir bifreiða árlega í 13 verksmiðjum í 8 löndum. Þar af er megnið af evrópubílum KIA framleiddir í Slóvakíu í nýrri og fullkominni verksmiðju KIA.