Kílómetragjald á rafbíla samþykkt á Alþingi

Á lokadegi Alþingis fyrir jólaleyfi voru samþykkt lög um kílómetragjalds sem kveða á um að af bíl sem knúinn er rafmagni eða vetni verði greitt kílómetragjald að fjárhæð sex krónur fyrir hvern ekinn kílómetra, en kílómetragjald af tengilbifreið verður tvær krónur á kílómetra.

Áformin hefðu þó mátt vera betur útfærð

Í umsögn Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, á haustmánuðum um áform frumvarps til laga um kílómetragjald af akstri hreinorku- og tengiltvinnbifreiða, mál nr. 183/2023 sagði m.a. að FÍB tók í meginatriðum undir þau áform að innheimta kílómetragjald af hreinorku- og tengiltvinnbílum til að tryggja framlag þeirra til uppbyggingar, viðhalds og reksturs vegakerfisins. Áformin hefðu þó mátt vera betur útfærð. Áhyggjur voru þó um að að gjaldið gæti komið niður á áhuga landsmanna á rafmagnsbílum.

Áformin voru að hluta til í samræmi við tillögur FÍB frá því í febrúar síðastliðnum um kílómetragjald af ökutækjum, en ganga þó mun skemur í útfærslu.

FÍB gerir þó athugasemdir við að fyrirhugað sé að leggja sama gjald á alla rafmagnsbifreiðar óháð þyngd. Það þýðir að rafbílar sem geta verið allt að þrisvar sinnum þyngri en léttustu bílar á götunni borgi sama gjald til vegakerfisins. Til útskýringar voru bornir saman tveir hreinorkubílar sem eiga skv. fyrirlyggjandi frumvarpi að greiða sama kílómetragjald.

47% þjóðarinnar jákvæð

Í könnun sem Prósent framkvæmdi dagana 10. til 27. október 2023 voru Íslendingar spurðir um viðhorf til kílómetragjalds. Þar kemur í ljós að um 47% þjóðarinnar eru jákvæð, 21% eru hvorki jákvæð né neikvæð og 32% eru neikvæð gagnvart frumvarpi um gjaldtöku í formi kílómetragjald vegna aksturs hreinorku- (þ.e. rafmagns- og vetnisbíla) og tengiltvinnbifreiða (e.hybrid).