Kílómetragjald tryggir að allir sem nota vegakerfið taka þátt í uppbyggingu þess

Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, hefur lengi hvatt til þess að tekið verði upp einfaldara kerfi þar sem skattar og gjöld á bíla haldast í hendur við það hve mikið hvert ökutæki er notað. Sú leið sem FÍB myndi vilja fara fæli í sér að fella niður öll þau gjöld sem í dag eru lögð á ökutæki og eldsneyti en innheimta kílómetragjald sem reiknað væri með aflestri af mæli. Þetta er þess meðal annars sem kemur fram í viðtali við Runólf Ólafsson, framkvæmdastjóra, FÍB, í Bílar í Morgunblaðinu.

Margt óeðlilegt við að gjöld á bifreiðar séu að stóru leyti ótengd akstri

 Runólfur segir margt óeðilegt við að gjöld á bifreiðar séu að stóru leyti ótengd akstri. Ef við tökum tvær sambærilegar bifreiðar, þar sem annarri er ekki ekið nema 1.000 km og hinni ekið 100.000 km með tilheyrandi útblæstri og sliti á vegum, þá eru aðflutningsgjöldin og árlegt bifreiðagjald það sama af af báðum bifreiðunum,“ segir hann.

 „Hins vegar hryllir okkur við þeirri hugmynd sumra stjórnmálamanna að beita myndavélaeftirliti og vegtollum til að ná inn meiri tekjum af umferðinni, bæði vegna persónuverndarsjónarmiða og einnig vegna þess að flest bendir til að kostnaðurinn við að innheimta slík gjöld yrði mjög hár,“ segir Runólfur í viðtalinu þar sem víða er komið við.

Gerðar hafa verið áætlanir sem gera ráð fyrir tollhliðum á höfuðborgarsvæðinu. Fæli fyrsti áfangi í sér að gera sveig frá Elliðavogi að Fossvogi og rukka allar bifreiðar sem færu þar í gegn. Segir Runólfur að vélbúnaðurinn muni kosta á bilinu 400 til 500 milljónir og hugbúnaðurinn fyrir tollhliðin kosta a.m.k. annað eins.

„Reynslan af innheimtu vegtolla við akstur undir Vaðlaheiði sýnir að bara innheimtukostnaðurinn fyrir staka ferð ökutækis gæti verið í kringum 120 kr. og er þá eftir að bæta við stofnkostnaði og daglegum rekstri búnaðar og innheimtukerfa,“ segir Runólfur.

Sú leið sem FÍB myndi vilja fara fæli í sér að fella niður öll þau gjöld sem í dag eru lögð á ökutæki og eldsneyti en innheimta kílómetragjald sem reiknað væri með aflestri af mæli.

„Kílómetragjald tryggir að allir sem nota vegakerfið taka þátt í uppbyggingu þess og viðhaldi,“ segir Runólfur.

„Þetta gjald gæti tekið mið af nokkrum þáttum, s.s. uppgefinni koltvísýringslosun og þyngd ökutækisins, og gæti jafnvel verið breytilegt eftir því í hvaða tilgangi ökutækið er notað eða hvar eigandi þess er búsettur. Bjóða ætti almenningi upp á einfalda reiknivél þar sem setja mætti inn helstu forsendur og áætla gjöldin fyrirfram af töluverðri nákvæmni, og ætti svona kerfi því að geta verið gegnsætt, skynsamlegt og sanngjarnt,“ segir Runólfur Ólafsson.