Kínabílar komnir til Evrópu

http://www.fib.is/myndir/Brilliance-llitil.jpg
Brilliance BS6 frá Kína

Fyrstu kínversku fólksbílarnir eru komnir til söluumboða um allt Þýskaland. Bílarnir heita Brilliance og eru framleiddir af ríkisverksmiðjunni Zonghua. Fyrstu sendingunni var skipað upp úr bílaflutningaskipi í Bremerhaven í byrjun síðustu viku og er nú búið að dreifa þeim flestum til  söluumboða um landið.

Umboðsaðilinn er fyrirtæki sem heitir HSO Europe til heimilis í Bremen. Forstjóri þess hélt blaðamannafund á hafnarsvæðinu í Bremerhaven meðan verið var að skipa bílunum upp. Hann sagði að áætlanir gengju út á það að selja 15 þúsund bíla á næsta ári í Þýskalandi, Austurríki, Sviss, Benelux-löndunum og Póllandi. Hann sagði að það hefði tekið Japani 20 ár að slá í gegn með bíla sína í Evrópu, en S. Kóreumenn 10 ár en það ætti eftir að taka Kínverja aðeins 10 ár.

Bílarnir sem nú eru boðnir kaupendum eru teiknaðir á Ítalíu af Giugiaro og Pininfarina og líta ansi líkt út og BMW en geta má þess að framleiðandinn, Zonghua byggir BMW bíla í Kína fyrir Kínamarkað og önnur Asíulönd. Um tvær gerðir er að ræða, annarsvegar BS4 sem er með fjögurra strokka tveggja lítra vél sem er ýmist 90 eða 122 ha.  og BS6 sem er með 2.4 lítra fjögurra strokka vél frá Mitsubishi sem er 140 hö.

Þeir kínversku bílar sem árekstursprófaðir hafa verið samkvæmt aðferðum og stöðlum EuroNCAP hafa komið illa út úr því og ekki er langt síðan jeppinn Landwind var prófaður hjá ADAC í Þýskalandi og fékk einkunnina –Dauðagildra. Samkvæmt forstjóra HSO stendur það allt til mikilla bóta innan skamms og verði þeirra bílar samkeppnisfærir við aðra bíla. http://www.fib.is/myndir/Brilliance.jpg