Kínverjar reisa bílaborg í anda Detroit

Kínverjar ætla sér greinilega stóran hlut í bílaframleiðslu heimsins og nýjasta merki þess eru miklar áætlanir um að reisa sérstaka bílaborg með verksmiðjum, flutningamiðstöðvum og íbúðahverfum. Borgin á að verða svipaðrar gerðar og bandaríska bílaborgin Detroit. Sérstakur arkitekt hefur verið ráðin til að hanna þessa kínversku Detroit. Sá er enginn annar en Albert Speer, sonur hirðarkitekst og hermálaráðherra sjálfs Adolfs Hitlers sem bar sama nafn. Kínversk stjórnvöld tóku endanlega ákvörðun um hönnun og byggingu bílaborgarinnar á mánudag, sem var fyrsti dagur nýs árs í Kína og gengu um leið frá samningum við son arkitekts Hitlers sáluga og fyrirtæki hans sem heitir Albert Speer and partners. Albert Speer staðfesti við þýska tímaritið Der Spiegel að hann hefði unnið hönnunarsamkeppni sem borgin Changchun stóð fyrir og að hann verði hönnuður nýju bílaborgarinnar sem verður útborg hennar. Changchun er næst stærsta miðstöð kínverska bílaiðnaðarins og þar stendur metnaður borgaryfirvalda og íbúa til að verða forystuafl í bílaframleiðslu heimsins. Volkswagen er stærsta bílaframleiðslufyrirtækið í borginni um þessar mundir og framleiðir aðallega Golf bíla fyrir Kínamarkað. Auk VW eru bæði Audi og Mazda með bækistöðvar í borginni en borgarfirvöld vilja fá minnst fimm aðra framleiðendur til nýju bílaborgarinnar hans Alberts Speer. Hin nýja fyrirhugaða bílaborg sem kölluð er Detroit austursins verður, ef áætlanir ná fram að ganga, byggð á næstu 10-15 árum. Í borginni verða íbúðir fyrir 300 þúsund íbúa og allt skipulag hennar verður miðað við bíla og bílamenningu. Helsta fyrirmyndin að nýju bílaborginni er sjálf höfuðborg Volkswagen - Wolfsburg í Þýskalandi - þar sem miðpunkturinn er skemmti-, viðskipta,- og menningarsvæðið Autostadt. Segja má að fyrsta tilraun kínverska bílaiðnaðarins til að ná fótfestu á evrópskum bílamarkaði hafi ekki tekist vel þegar innflutningur á jeppanum Landwind hófst. ADAC, systurfélag FÍB árekstursprófaði bílinn samkvæmt verklagi EuroNCAP og bíllinn kom afleitlega út úr því. Í framhaldinu bentu bifreiðaeigendafélögin og samtök þeirra FIA á gloppur í löggjöf Evrópska efnahagssvæðisins um innflutning bíla sem gera innflutning á óöruggum bílum eins og Landwind mögulegan. En nú eru Kínverjar að hefja markaðssókn fyrir annan al-kínverskan bíl, Chery á Vesturlöndum en Chery var sýndur á bílasýningunni í Detroit nýlega. Arkitektinn Albert Speer er sonur Alberts Speer sem var arkitekt og nánasti ráðgjafi Adolfs Hitlers í listrænum efnum og hermálaráðherra í stjórn Þriðja ríkisins. Albert Speer yngri er arkitekt eins og faðir hans var. Hann hefur áður starfað í Kína og meira og unnið hönnunarsamkeppni um aðra bílaborg þar - í Shanghai. Hann er einn af mest áberandi arkitektum Þýskalands nútímans og meðal verka hans er skipulag miðborgar Frankfurt og fleiri þýskra stórborga. Þá sá hann um skipulag og uppsetningu heimssýningarinnar Expo árið 2000 í Hannover.