Kínverjar vilja Fisker

Hið kínverska Geely sem rekur samnefndar bílaverksmiðjur í Kína og á m.a. Volvo fólksbílaframleiðandann í Svíþjóð, leitast nú við að eignast meirihluta í bandaríska rafbílaframleiðandanum Fisker í Anaheim í Kaliforníu. Geely er þó ekki eina kínverska fyrirtækið um hituna því að ríkisfyrirtækið Dongfeng Motor Group Co. hefur einnig boðið í Fisker. Reuters fréttastofan greinir frá þessu.

Fisker var stofnað af Dananum Henrik Fisker sem eitt sinn var yfirhönnuður hjá BMW og tilgangurinn var að framleiða rafknúinn lúxusbíl (rafbíl með rafstöð). Byrjunin hefur reynst harla erfið og mörkuð tæknilegum vandkvæðum sem fælt hafa kaupendur frá þrátt fyrir vel hannaðan og vandaðan bíl sem ber nafnnið Fisker Karma. Til að forða fyrirtæki sínu frá gjaldþroti hefur Henrik Fisker leitað dauðaleit að nýju fjármagni og til þess er áhugi Kínverjanna rakinn.

Kínversk yfirvöld og bílaframleiðendur hafa mikinn áhuga sem og þekkingu á "grænum" bílum og bíltækni sem líkleg er til að draga úr mengun frá samgöngum og hreinsa loftið sem umlykur kínverskar risaborgir. Því leitast þeir við að ná ítökum sem víðast innan "græna" geirans. Reutersfréttin greinir frá því að þær upphæðir sem sem um ræðir í sambandið við kaup á Fisker hlutabréfunum séu 2-300 milljónir dollara og að Geely sé líklegri til að hreppa hnossið þar sem það er eins manns fyrirtæki og skjótara til ákvarðana en ríkisfyrirtækið Dongfeng.

Fisker hefur til þessa einungis framleitt eina gerð bíla - Fisker Karma. Almenn sala hófst á bílnum árið 2011 og eignaðist Friðrik krónprins Dana þann fyrsta sem skráður var í Evrópu. Bíllinn kostar við verksmiðjudyr í Anaheim um 100 þúsund dollara. Með tilkomu nýs meðeiganda að Fisker er ljóst að hægt verður að hefja framleiðslu á minni og ódýrari bíl. Slíkur bíll er reyndar nánast fullhannaður. Hann er einnig rafbíll með rafstöð um borð og ætti að verða um það bil helmingi órdýrari en Fisker Karma.