Kínversk bílainnrás hafin í Bretland

Kínverskur pallbíll; Great Wall Steed, er kominn í almenna sölu í Bretlandi. Þetta er pallbíll með fimm manna húsi, og mjög svipaður í stærð og útliti og Toyota Hilux, Isuzu D-Max o.fl. Great Wall er þar með fyrsta kínverska bílategundin inn á almennan bílamarkað í Bretlandi. Verðið er mjög hagstætt eða um 3,5 milljónir ísl. kr. með virðisaukaskatti. 

http://www.fib.is/myndir/Great-Wall-Steed2.jpg

Steed pallbíllinn kom á Bretlandsmarkað síðla árs 2012 og hefur hotið allgóðar viðtökur enda er hann ódýrasti bíll þessarar gerðar sem völ er á. Til samanburðar þá kostar Isuzu D-Max Double Cab frá 4,3 milljónum ísl. kr. Dreifingarnetið var upphaflega fremur smátt í sniðum en nú eru sölu- og þjónustuaðilar orðnir um 40. Innflytjandinn auglýsir að þjónusta verði með tímanum sú besta sem býðst.

Steed pallbíllinn er með tveggja lítra, 143 ha. dísilvél og sex gíra handskiptum gírkassa. Hann er afturhjóladrifinn á venjulegum vegi en hægt er að skipta í fjórhjóladrifið á ferð. Eyðslan er sögð í meðallagi eða þannig að á hverju galloni af olíu kemst bíllinn að meðaltali 34 mílur. Það jafngildir því að komast um 13,5 km á lítranum.