Kínverska bílainnrásin í Bandaríkin inn um bakdyrnar

Bandaríski bílaiðnaðurinn hefur um talsverða hríð skolfið á beinunum yfir þeirri tilhugsun að  Kínverjar ryðjist inn á bandaríska bílamarkaðinn með bíla sem eru svo ódýrir að enginn geti keppt við þá. Tækist Kínverjum þetta sama sem Japönum tókst fyrir ca 30 árum og Kóreumönnum fyrir ca. 15 árum, þá sér bandaríski bílaiðnaðurinn og hinn rótfasti japanski bílainnflutningur sína sæng upp reidda. Þannig nái Kínverjarnir, sennilegast á miklu auðveldari hátt en Japanarnir fyrrum, að fanga athygli og ímyndunarafl bílakaupenda sem gagnstætt foreldrum sínum, öfum og ömmum, gefa dauðann í alla þjóðrembu og hafa miklu jákvæðara viðhorf til framandlegrar menningar og erlendra vörumerkja.

 En sannleikurinn er þó sá að bandaríski bílaiðnaðurinn þurfti ekki kínverskan bílainnflutning til að setja sig út af laginu heldur réði spilavítisháttalagið á Wall Street og fjáraustur í ónýt fasteignaveðbréf meiru þar um. En fróðir menn um bílamarkað og fjármál  Bandaríkjanna eru þess fullvissir að Kínverskir bíla eigi eftir að streyma til Bandaríkjanna en bara ekki á sama hátt og bílaiðnaðurinn óttaðist mest.

http://www.fib.is/myndir/BYD-f3-motor.jpg
50 kW bensínvél og 50 kW rafmótor í BYD F3.

 Nú stendur bílasýninginn í Detroit sem hæst  og þar sýnir kínverski bílaframleiðandinn Geely vörur sínar . Geely er einmitt nýbúinn að ganga frá kaupum á Volvo Personvagnar af Ford Motor Co. Kaupin þýða það fyrir bandaríska eigendur Volvo bíla að næst þegar þeir mæta með bíla sína í þjónustuskoðun eða kaupa varahluti þá eru þeir að eiga viðskipti við Kínverja. Sömu sögu er að segja af eigendum Hummer bíla, en Hummer er nú í eigu Sichuan Tengzhong Heavy Industrial Machinery Co. í Kína. Enn er sjálfsagt langt í það að Volvo og Hummer verði framleiddir í Kína fyrir Bandaríkjamarkað, en engu að síður, eru eigendur bílanna á sinn hátt komnir í viðskipti við Kínverja.

 Kínverjarnir eru því komnir inn á bandaríska bílaiðnaðinn þótt með öðrum hætti sé en  flestir reiknuðu með. Áður höfðu reyndar tveir kínverskir bílaframleiðendur; BYD og Brilliance boðað  innrás á bandarískan bílamarkað en árekstursprófanir á bílunum stöðvuðu þær fyrirætlanir bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu. Bílarnir komu einfaldlega hraklega illa út úr þessum prófunum beggja vegna Atlantshafsins.

 En nú er BYD aftur kominn á dagskrá. Kínverjarnir frá BYD héldu blaðamannafund á bílasýningunni í Detroit . Þar greindu þeir frá því að þeir hyggðu á innflutning á rafmagnsbílum og tvinnbílum til Kaliforníu undir lok þessa árs, að vísu ekki í mjög stórum stíl til að byrja með. BYD er mjög stórt fyrirtæki og meginstarfsemi þess er framleiðsla á rafhlöðum auk bílasmíðinnar. Fjárfestingafyrirtækið Berkshire Hathaway sem er í eigu auðmannsins Warren Buffet lagði BYD til 230 milljón dollara fjármagn árið 2008 til að koma á fót sérstakri verksmiðju til að framleiða líþíumrafhlöður fyrir rafbíla. Aðkoma Bandaríkjamannsins að fyrirtækinu hefur skapað BYD trúverðugleika hjá Bandaríkjamönnum sem aðra kínverska bílaframleiðendur skortir (með réttu eða röngu).

Talsmenn BYD sögðu í Detroit á dögunum að raf- og tvinnbílainnflutninginn til Kaliforníu undir lok ársins bæri að líta á sem tilraun. Þeir bílar sem um ræðir væru nú til skoðunar hjá bandarískum samgönguyfirvöldum sem beinist að því að athuga hvort þeir uppfylli öryggiskröfur o.fl. Bílarnir hefðu þegar fengið kínverska gerðarviðurkenningu og hefðu þar staðist allar kröfur, enda hefðu þeir verið hannaðir og byggðir í samræmi við bandarískar kröfur um umhverfisáhrif, styrk og öryggi.

 BYD bílar ganga vissulega ágætlega í Kína sjálfu. Fólksbíllinn BYD F3 var einn söluhæsti bíllinn í Kína á nýliðnu ári. All seldust 450 þúsund F3 bílar þar en einungis nokkur hundruð þeirra voru hreinir rafbílar.