Konurnar meðvitaðri

CO2 losun frá nýjum bílum í Svíþjóð heldur áfram að dragast saman, einkanlega fyrir tilverknað kvenna og sveitarfélaga. Það eru nefnilega konurnar og sveitarfélögin sem helst velja til kaups bíla sem losa frá sér minna koldíoxíð. Þetta má lesa úr samantekt sænsku neytendastofnunarinnar og umferðarstofunnar um bílakaup Svía árið 2012.

Ekki eru mörg ár síðan Svíar voru í nokkrum sérflokki Evrópuþjóða fyrir það að kaupa stærri, öflugri og eyðslufrekari nýja bíla en aðrir. Það hefur breyst. Nú, um sex árum síðar, er eyðsla og útblástur nýrra bíla í Sví­þjóð mjög nærri evrópska meðaltalinu. Magn þess koldíoxíðs sem úr púströrum nýrra bíla hefur minnkað um hálft kíló á hverja 10 kílómetra sem þeim er ekið. Það þýðir 27 prósent bata eða minnkun á þessum sex árum.

Umhverfismálastjóri sænsku vegagerðarinnar telur þetta mjög jákvæða þróun í átt til sparneytnari og umhverfismildari farartækja. Ljóst sé af þessu að pólitískir og hagrænir hvatar hafi virkað. Hægt sé að ná enn betri árangri ef neytendur sjálfir herði kröfur sínar um sparneytnari og og þar með mengunarminni bíla.

Meðal CO2 útblástur þeirra bíla sem nýskráðir voru í Svíþjóð á árinu 2012 er 138 grömm á kílómetrann. Árið 2006 var meðalútblásturinn 189 grömm á kílómetrann. Hvarfar og önnur hreinsitæki í útblásturskerfum bifreiða ráða ekki við að eyða koltvísýringnum þannig að bein fylgni er milli eldsneytiseyðslu bíla og CO2 útblásturs. Meðalútblásturinn nú er því skýrt merki um það að Svíar kaupa í verulega stærri mæli sparneytnari bíl en þeir gerðu áður.

Konurnar eru síðan mun meðvitaðri í þessum efnum en karlmennirnir sem sést á því að nýskráðir bílar kvenna 2012 gefa frá sér um 1o grömmum minna af CO2 á hvern ekinn kílómetra en bílarnir karlanna. Meðalútblástur kvennabílanna er 131 gramm á kílómetrann samkvæmt uppgefnum Evrópumælingartölum, en karlabílanna 140 grömm á kílómetra. Konurnar velja sparneytnari bíla en karlarnir og hið sama gera sveitarfélög auk þess að  velja einnig bíla, umfram hina almennu kaupendur, sem þola að ganga á hærra hlutfalli lífræns eldsneytis eins og etanóli.

Árið 2012 voru 280 000 fólksbílar nýskráðir í Svíþjóð. Það er 8,2 prósenta fækkun miðað við árið 2011.