Kóronaveiran lækkar eldsneytisverð

COVID-19 veiran hefur haft áhrif á heimsmarkaðsverð olíu.  Minni olíueftirspurn í Kína hefur vegið þyngst.  Verð á bensíni og dísilolíu hafa lækkað verulega frá áramótum. 

Frá því í desember 2019 hafa Kínverjar verið í erfiðri baráttu við kórónaveiruna og þar hafa flest smit og dauðsföll verið tilkynnt. Útbreiðsla veirunnar hefur haft lamandi áhrif á kínverskt efnahagslíf og fjölmargar verksmiðjur hafa lokað tímabundið.  Kína er með stærstu kaupendum olíu á heimsvísu en áfallið hefur snardregið úr eftirspurn eftir olíu þar í landi.  Hröð útbreiðsla og ótti við kórónaveiruna hefur komið illa niður á hagkerfum heimsins sem aftur hefur ýtt niður olíuverðinu.  Gengi Bandríkjadals hefur lækkað vegna faraldursins en dollarinn er helsti viðskiptagjaldmiðillinn í olíuviðskiptum.

Tunna af Brent-olíu fór í 48 dollara í dag en kostaði um 68 dollara í upphafi árs.  OPEC olíuríkin gerðu með sér samkomulag í vikunni um að draga úr framleiðslu en það hefur ekki haft áhrif á heimsmarkaðsverð olíu.

Á meðfylgjandi myndum má sjá þróun verðmyndunar á bensíni og dísilolíu hjá danska olíufélaginu Circle K frá áramótum annars vegar og hins vegar verðþróunina hjá N1 á Íslandi.

Þróun verðmyndunar á bensíni og dísilolíu hjá danska olíufélaginu. Þróun verðmyndunar á bensíni og dísilolíu hjá danska olíufélaginu.

Þarna má sjá að skráð útsöluverð hjá Circle K á bensíni hefur lækkað um 0,90 danskar krónur sem er um 17 íslenskar krónur á lítra og dísilolían hefur lækkað um 1.10 danskar krónur sem er um 21 íslensk króna.  Á sama tíma hefur bensínlítrinn hjá N1 lækkað um 4.20 krónur og dísilolían um 11.70 krónur.  Það er hægt að skýra lítinn hluta af þessum mikla mun á milli lækkunarinnar hér heima samanborið við Danmörku með veikingu íslensku krónunnar en þyngst vegur hækkun álagningar.